Auknar aflaheimildir til sjávarbyggða í vanda
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, hefur ákveðið að leggja til meiri aflaheimildir vegna verkefnisins „efling sjávarbyggða“. Nú þegar eru 6 byggðalög sem taka þátt í verkefninu, en þau eru skilgreind sem sjávarbyggðir í bráðum vanda. Byggðastofnun hefur skilgreint fjórar sjávarbyggðir til viðbótar í bráðum vanda: Djúpavog, Þingeyri, Hrísey og Breiðdalsvík.
Sigurður Ingi Jóhannsson: „ Við höfum nú þegar lagt 1.800 tonn til þessa, en þær verða nú auknar um 1.100 tonn. Það háttar víða þannig til á landsbyggðinni að afkoma fólks byggist að miklu leyti á því sem úr sjó er dregið og án útgerðar og vinnslu minnkar byggðafesta. Byggðastofnunarverkefnið er ný nálgun sem mér finnst spennandi að þróa áfram, aflaheimildum er ekki úthlutað til einstakra skipa eins og almenna reglan er, heldur sérstakra uppbyggingaverkefna.“
Byggðastofnun mótar þær reglur og viðmið sem áhersla er lögð á við úthlutun á aflaheimildum. Lögð er áhersla á samstarf við útgerðarfyrirtæki sem geta lagt fram heimildir á móti þeim sem koma frá Byggðastofnun. Almennt leggur Byggðastofnun fram um fjórðung hráefnis til vinnslu á móti þremur fjórðu hráefnis, eða eftir atvikum annarra starfsígilda, frá einkaaðilum.
Ákvörðun ráðherra byggist á minnisblaði frá Byggðastofnun sem unnið var að hans beiðni í fyrra mánuði, sjá hér. Minnisblaðið var unnið vegna fyrirhugaðra lokana á fiskvinnslum á Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri. Sú aðgerð mun hafa neikvæð atvinnuáhrif á viðkomandi stöðum, sérstaklega Djúpavogi og Þingeyri. Markmiðið með aflaheimildunum sem Byggðastofnun fær til ráðstöfunar er að treysta áframhaldandi fiskvinnslu á svæðunum. Aflaheimildir til verkefnisins munu koma til ráðstöfunar á fiskveiðiárinu 2014/15 og grundvallast á heimild ráðherra í 10. gr. laga nr. 106/2006 um stjórn fiskveiða um ráðstöfun aflaheimilda til stuðnings byggðarlaga í samráði við Byggðastofnun.
Byggðastofnun hefur jafnframt lýst yfir vilja til samstarfs við sveitastjórnir fyrrnefndra byggðalaga til að greina og þróa önnur atvinnutækifæri á svæðunum.