Undirbúningur er hafinn að stofnun og rekstri rannsóknarseturs í áli og efnisvísindum
Á ársfundi Samáls í dag var skrifað undir viljayfirlýsingu um stofnun á rannsóknarsetri í áli og efnisvísindum. Það var Ragnheiður Elín iðnaðarráðherra og fulltrúar Háskólans í Reykjavík, Háskóla Íslands, Nýsköpunarmiðstöðvar og Samáls, samtaka álframleiðenda, sem undirrituðu samninginn.
Hér að neðan er viljayfirlýsingin sem undirrituð var:
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Samtök álframleiðenda, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands hafa sett sér það sameiginlega markmið að efla nýsköpunar- og þróunarstarf í áliðnaðinum. Með auknu samstarfi verður leitað leiða til að auka virðisauka, efla útflutning og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi.
Á þeim grundvelli verður hafinn undirbúningur að stofnun og rekstri rannsóknaseturs í áli og efnisvísindum sem verður útfært nánar í samstarfi framangreindra aðila og annarra hagsmunaaðila sem tekið hafa þátt í sameiginlegri stefnumótun áliðnaðarins.
Jafnframt lýsa Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskólinn í Reykjavík sig reiðubúin til að leggja fram hvort um sig vinnuframlag sem tilsvarar hálfu stöðugildi í óstofnað rannsóknasetur.
Með markvissu samstarfsátaki verða skilgreindar aðgerðir sem ætlað verður að auka verðmætasköpun í greininni og efla undirstöður ál- og efnisiðnaðar. Áliðnaðurinn og tengd starfsemi hefur mikla þýðingu í íslensku efnahagslífi enda hefur útflutningur á áli verið einn stærsti liður í útflutningstekjum landsins. Með samstilltu átaki verður unnið að því að auka samkeppnishæfni áliðnaðarins og tengdra framleiðslu- og þjónustugreina á Íslandi.