Byggt undir frekari vöxt fiskeldis
Lög um fiskeldi sem samþykkt voru á alþingi á dögunum einfalda mjög umsóknarferli starfs- og rekstrarleyfa fiskeldisfyrirtækja. Eins verða kröfur til umhverfisrannsókna auknar og fyrirtæki í sjókvíaeldi munu nú greiða árgjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis sem kosta mun rannsóknir tengdar umhverfisþáttum. Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en þar segir að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir endurskoðun á regluverki atvinnulífsins með einföldun og aukna skilvirkni að leiðarljósi. Og að ríkisstjórnin sé fylgjandi því að náttúruvernd og náttúrunýting fari saman.
Samstaða er um það að miða skuli við ströngustu umhverfiskröfur í fyrirsjáanlegri uppbyggingu í fiskeldi. Meðal þess sem þarf að huga að er svokallað burðarþol; hve mikið fiskeldi viðkomandi svæði þolir, án þess að skaða umhverfið. Skort hefur á rannsóknir í þessum efnum samhliða vexti í fiskeldi og hefur það haft hamlandi áhrif. Sú ákvörðun hefur því verið tekin að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið geri ráðstafanir til þess að slíkar rannsóknir hefjist strax í sumar. Og að ráðuneytið tryggir kostun þeirra þar til umhverfissjóður sjókvíaeldis er orðinn nægilega burðugur. Með þessu er leitast við að styðja við vöxt þessarar atvinnugreinar í sem mestri sátt við umhverfi.
Fiskeldissvæði við Ísland hafa þegar verið skilgreind og er um takmarkaða auðlind að ræða. Við afmörkun svæðanna var gríðarstórum hluta strandlengjunnar lokað í því skyni að verja hana vegna göngu laxa í ár.
Mikil tækifæri eru til staðar í fiskeldi og nú þegar hafa verið gefnar heimildir til að framleiða 42 þúsund tonn. Þar af eru rekstrarleyfi fyrir laxfiskaeldi 12 þúsund tonna framleiðslu úr sjó á Vestfjörðum og 10 þúsund tonna framleiðslu á Austfjörðum. Gangi áform eftir gæti eldi á fiski orðið 40 til 50 þúsund tonn á næstu 10 til 15 árum. Verðmætið gæti numið 30 til 40 milljörðum króna á ári.
Alls eru um 250 til 260 bein störf í fiskeldi í dag og mun væntanlega fjölga verulega á næstu árum. Fiskeldi hefur haft umtalsverð áhrif á suðurfjörðum Vestfjarða og hefur mikil uppbygging átt sér stað, meðal annars á Patreksfirði, Bíldudal og í Tálknafirði. Íbúafjölgun hefur orðið á suðurfjörðunum, eða um 5% milli áranna 2012 og 2014.