Rio Tinto Alcan á Íslandi hlýtur Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2014
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti í dag Rannveigu Rist forstjóra Rio Tinto Alcan á Íslandi Hvatningarverðlaun jafnréttismála. Markmiðið með verðlaununum er að vekja athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til þess að gera slíkt hið sama.
Ragnheiður Elín sagði í ræðu sinni að Rio Tinto Alcan á Íslandi hafi með markvissum hætti stuðlað að jafnrétti í starfsemi sinni um árabil. „Stjórnendur fyrirtækisins hafa með eftirtektarverðum hætti breytt menningu fyrirtækisins svo bæði kynin eiga þar nú jafna möguleika til starfsframa og þar er stuðlað að launajafnrétti. Árangur fyrirtækisins er sérstaklega eftirtektarverður þar sem starfssvið þess var um áratugaskeið álitið starfsvettvangur karla fremur en kvenna. Forstjóri fyrirtækisins hefur, ásamt stjórnendateymi sínu, aukið vitund í samfélaginu um kynjajafnrétti og sýnt að jafnrétti stuðlar að aukinni hagsæld.“
Að baki Hvatningarverðlaunum jafnréttismála standa auk atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins og Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð.
Dómnefnd árið 2014 skipuðu:
- Inga Jóna Þórðardóttir, formaður, fyrir hönd iðnaðar- og viðskiptaráðherra
- Magnús Árni Magnússon, fyrir hönd landsnefndar UN Women á Íslandi
- Bergþóra Halldórsdóttir, fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins
- Ketill Berg Magnússon, fyrir hönd Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð
Alls bárust 19 tilnefningar um 14 fyrirtæki til Hvatningaverðlaunanna fyrir árið 2014.