Hoppa yfir valmynd
27. maí 2014 Forsætisráðuneytið

Stjórnarráð Íslands undirritar Jafnréttissáttmála UN Women

Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytis, staðfesti sáttmálana fyrir hönd Stjórnarráðsins
Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytis, staðfesti sáttmálana fyrir hönd Stjórnarráðsins

Stjórnarráð Íslands undirritaði í dag yfirlýsingu um að fylgja Jafnréttissáttmála stofnunar Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women). Þetta er í fyrsta sinn sem öll ráðuneyti eins ríkis undirrita þennan sáttmála í sameiningu. Jafnframt var undirritaður sáttmáli SÞ um samfélagslega ábyrgð.

Undirritunin fór fram á opinni ráðstefnu UN Women á Íslandi, Festa og Samtaka atvinnulífsins á Hótel Nordica, en Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytis, staðfesti sáttmálana fyrir hönd Stjórnarráðsins.

„Ég óska íslenskum stjórnvöldum til hamingju með að tileinka sér Jafnréttissáttmála Stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna og staðfesta enn á ný forystuhlutverk Íslands í að stuðla jafnrétti kynjanna. Þessi sáttmáli er tæki, bæði fyrir opinbera geirann og almenna markaðinn til þess að koma á jafnrétti kynjanna á vinnustöðum,“ segir Kristin Hetle, framkvæmdastjóri hjá UN Women í New York, sem var viðstödd ráðstefnuna.

Með undirrituninni lýsir Stjórnarráð Íslands yfir stuðningi við þau viðmið sem sett eru fram sáttmálunum og skuldbindur sig til þess að fylgja viðmiðunum í hvívetna.

Undirritun sáttmálanna fellur að þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda að Ísland verði áfram í fararbroddi í jafnréttismálum en Ísland hefur skipað fyrsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) um jafnrétti kynjanna fimm ár í röð.

Enn eru þó áskoranir t.d. hvað varðar stöðu kvenna í atvinnulífinu því konur í æðstu stjórnunarstöðum eru mun færri en karlar. Þá þarf að uppræta launamun kynjanna og grípa til aðgerða til að stuðla að breyttu náms- og starfsvali, en vinnumarkaður á Íslandi er mjög kynskiptur.

Viðmið sáttmálanna eru að stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði, sýna jafnt körlum sem konum virðingu og styðja mannréttndi og jafnrétti, tryggja heilsu, öryggi og velferð allra kvenna og karla á vinnustað, efla menntun, þjálfun og faglega þróun kvenna á vinnustað. Jafnramt að innleiða stefnu og aðgerðir á meðal stofnana ríkisins sem og á vinnumarkaði sem ýta undir aukna þátttöku kvenna, stuðla að jafnrétti í samfélaginu með vitundarvakningu og átaksverkefnum og mæla og birta opinberlega árangur í jafnréttismálum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira