Skýrsla um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu á Íslandi ... og 5 tillögur þar að lútandi!
Ferðamálastofa skilaði í dag skýrslu til iðnaðar- og viðskiptaráðherra um einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu á Íslandi. Í samræmi við áherslu ríkisstjórnarinnar um einfaldara regluverk fól ráðherra Ferðamálastofu að skoða starfsumhverfi ferðaþjónustunnar með það að markmiði að auðvelda og einfalda umhverfið eins og kostur er, hvort sem það er með einföldun á leyfisferlum, skipulagi og verkferlum í kringum þau eða annarri umgjörð um starfsemi ferðaþjónustunnar.
Lögð var áhersla á að við vinnuna yrði leitað eftir samstarfi við haghafa og þeim gefin kostur á að koma á framfæri ábendingum um möguleika á einföldun og aukinni skilvirkni.
Í skýrslunni eru settar fram eftirfarandi fimm tillögur:
1. Ein rafræn gátt
Formleg samskipti ferðaþjónustuaðila við hið opinbera fari fram í gegnum eina vefgátt (e. one stop shop), þ.m.t. leyfisveitingar eða skráningar og gagnaskil.
Sjá má samanburð yfir leyfisveitingar fyrir og eftir breytingar sem lagðar eru til með einni gátt á bls. 42-45 í skýrslunni.
2. Einföldun regluverks
Lagðar eru til fjölmargar breytingar til einföldunar regluverks og starfsumhverfis ferðaþjónustunnar í þeim anda að draga úr fyrirfram tálmunum (leyfi, vottorð og umsagnir stjórnvalda) við því að starfsemi hefjist. Atvinnulífinu sé í grunninn sýnt traust til að reka sína starfsemi skv. lögum og reglum.
Sjá má breytingarnar sem lagðar eru til á bls.10-17 í skýrslunni.
3. Aukið öryggi og bætt reglufylgni
Lögbundnar verði öryggiskröfur sem ferðaþjónustuaðilum verði skylt að uppfylla. Unnið verði gegn ólöglegri starfsemi með skilvirkari viðurlögum.
Sjá má breytingarnar sem lagðar eru til á bls. 18-23 í skýrslunni
4. Stefnumótun og aðgerðaáætlun
Opinber stefna í ferðaþjónustu verði endurskoðuð og sett fram á skýran, aðgerðabundinn og einfaldan hátt til að samræma áherslur og aðgerðir á landsvísu.
5. Aukið hlutverk Vakans
Lagt er til að Vakanum verði falið lykilhlutverk í gæða- og öryggismálum ferðaþjónustunnar og að merki hans verð endurskoðað með alþjóðlega skírskotun í huga.
Einföldun starfsumhverfis og regluverks í ferðaþjónustu - maí 2014
Ráðherra þakkar Ferðamálastofu ásamt öllum þeim sem komið hafa að gerð skýrslunnar sérstaklega fyrir faglega og góða vinnu. Ráðuneytið mun í kjölfar skýrslunnar taka tillögur starfshópsins til áframhaldandi skoðunar og má búast við að fyrstu einföldunarverkefnum verði hrint í framkvæmd í byrjun sumars.