Hoppa yfir valmynd
30. maí 2014 Atvinnuvegaráðuneytið

Fjárfestingarsamningur vegna kísilverksmiðju Thorsil í Helguvík undirritaður

Thorsil undirritun
Thorsil undirritun

Í dag undirritaði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra fjárfestingarsamning við Thorsil ehf. vegna fyrirhugaðrar kísilverksmiðju félagsins í Helguvík á Reykjanesi. Áætlað er að framkvæmdir hefjist á þessu ári og miðað er við að verksmiðjan verði komin í fullan rekstur í byrjun árs 2017.  

Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Alþingis og Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Áætluð ársframleiðslugeta verður 54.000 tonn af kísilmálmi og orkuþörfin er um 87 MW. Áformað er að framleiðslan verði seld á erlendum mörkuðum sem og þær aukaafurðir sem myndast við framleiðsluna.

Heildarfjárfesting verkefnisins er um 252 milljónir USD, eða um 38 milljarðar ISK m.v. gengiskráningu í dag. Félagið er í eigu tveggja íslenskra félaga, Northsil ehf (69%) og Strokkur Energy ehf. (31%).

Gert er ráð fyrir að yfir 100 manns starfi við uppbyggingu á verksmiðjunni og að 150 starfsmenn verði ráðnir til starfa við framleiðsluna þegar rekstur er hafinn.

Verkefni þetta á sér langan aðdraganda og má nefna að í lok árs 2010 var gerður fjárfestingarsamningur við sama félag vegna sams konar verkefnis í Þorlákshöfn, en sá samningur kom aldrei til framkvæmda. Eftir að hafa skoðað ýmsa staðsetningarmöguleika var loks tekin ákvörðun um að byggja kísilverksmiðjuna upp í Helguvík og hefur verið unnið að undirbúningi undanfarna mánuði í samstarfi við sveitarfélög á svæðinu.

Fyrr í vikunni undirrituðu Thorsil ehf. og Hunter Douglas Metals í Bandaríkjunum samning um sölu og dreifingu á 24.000 tonnum af kísilmálmi á ári í átta ár. Thorsil mun hefja afhendingu á málminum árið 2017. Verðmæti viðskiptanna, sem samningurinn nær til, er um 67 milljarðar króna. Thorsil er með í undirbúningi langtímasamninga við fleiri erlenda stórnotendur á kísilmálmi.

Thorsil undirritun

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta