Hoppa yfir valmynd
2. júní 2014 Atvinnuvegaráðuneytið

Samstarf stjórnvalda og fyrirtækja um öfluga íslenska markaðssókn í Norður-Ameríku

Iceland naturally samningur
Iceland naturally samningur

Í dag undirritaði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra samning um markaðs- og kynningarverkefni í Norður–Ameríku undir heitinu Iceland Naturally. Auk atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins eru Icelandic Group, Icelandair, Bláa lónið, ISAVIA, Reyka Vodka, Icelandic Glacial Water, Reykjavíkurborg, Íslandsbanki, Landsvirkjun, Íslandsstofa, utanríkisráðuneytið og forsætisráðuneytið aðilar að samningnum. 

Markmiðið með Iceland Naturally  er að styrkja ímynd Íslands og styðja við íslensk vörumerki á mörkuðum í Norður-Ameríku með því að auka á sýnileika íslenskrar vöru og þjónustu og hefur verkefnið verið starfrækt frá aldamótum. 

Kannanir sýna að mikill árangur hefur náðst á undanförnum árum og er samningurinn sem skrifað var undir í dag mikilvægur áfangi í að efla enn frekar útflutning á íslenskum vörum til Norður-Ameríku og innflutning á ferðamönnum frá Bandaríkjunum og Kanada til Íslands.

Neytendur í Norður-Ameríku hafa mun jákvæðara viðhorf til Íslands

Frá því að Iceland Naturally verkefnið var sett á laggirnar hafa verið framkvæmdar níu rannsóknir í Bandaríkjunum og þrjár í Kanada um viðhorf neytenda til Íslands og þess sem íslenskt er. Sýna þær að jákvætt viðhorf neytenda hefur aukist öruggum skrefum.

Í fyrstu könnuninni kom fram að um 80% aðspurðra höfðu engan áhuga á Íslandi og vildu ekki upplýsingar um landið. Í rannsókn sem gerð var í síðasta mánuði kom fram að 49% aðspurðra sögðu að Ísland hafi mikið aðdráttarafl sem áfangastaður (17% árið 2000) og að 57% sögðust vilja vita meira um landið. Sömu sögu er að segja um aðrar breytur sem spurt er um og ljóst að staða Íslands í hugum neytenda í Bandaríkjunum og Kanada hefur gjörbreyst.

Samhliða þessu hafa stöðugt fleiri ferðamenn frá Bandaríkjunum og Kanada komið til Íslands. Árið 2013 komu hingað til lands 145 þúsund ferðamenn frá Bandaríkjunum og Kanada en árið 2008 voru þeir um 50 þúsund. 

Iceland naturally samningur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta