Hoppa yfir valmynd
18. júní 2014 Dómsmálaráðuneytið

Vegna dóms Hæstaréttar

Vegna fyrirspurna fjölmiðla í framhaldi af birtingu dóms Hæstaréttar um kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á hendur blaðamanni vill innanríkisráðuneytið taka eftirfarandi fram:

Innanríkisráðuneytið á ekki beina aðkomu að umræddum dómi eða þeim málaferlum sem hér um ræðir, enda er kæra lögmanns hælisleitanda á hendur ráðuneytinu enn til rannsóknar hjá lögreglu að beiðni ríkissaksóknara. Sú rannsókn hefur nú staðið í tæpa fimm mánuði. Á þeim tíma hefur lögregla fjórum sinnum leitt blaðamann fyrir dómstóla með þeim rökum að ekki takist að finna því stað að trúnaðargögn hafi farið frá innanríkisráðuneytinu.

Allan þennan tíma hafa starfsmenn ráðuneytisins sætt ítarlegri rannsókn þar sem skoðuð hafa verið málaskrár, skjalasöfn, tölvupóstar starfsmanna, aðgangskort þeirra og símanotkun. Nokkrir starfsmenn hafa verið yfirheyrðir, auk þess sem persónuleg símanotkun, tölvunotkun og tölvupóstar þeirra hafa verið skoðuð, líkt og fram kemur í þeim gögnum sem birt eru samhliða dómi Hæstaréttar. Í þeim dómi er einnig ítrekað að rannsókn lögreglunnar bendi til þess „að hverfandi líkur séu á því að minnisblaðið hafi verið sent frá ráðuneytinu í tölvupóstkerfi þess“ og að lögregla hafi í rannsókn sinni leitað allra þeirra leiða sem færar séu til að upplýsa málið. 

Engu að síður er nokkuð fast að orði kveðið í umræddri kröfu gegn blaðamanni og einstaklingum, sem felst m.a. í því að persónuleg samtöl einstakra starfsmanna ráðuneytisins eru sett í sérkennilegt samhengi. Vegna þessa er rétt að árétta það sem liggur í augum uppi að stór hluti af daglegu starfi ráðuneytisins eru samskipti við fjölmiðla og ýmsir starfsmenn ráðuneytisins eiga mörg samtöl við fjölmiðla á hverjum einasta degi. Slík samtöl eru eðlilegur hluti starfa þeirra auk þess sem fram hefur komið að þau samtöl sem vakin er sérstök athygli á í umræddri greinargerð voru hvorki við þá blaðamenn sem lögregla kærði né tengdust þau umræddri rannsókn.

Innanríkisráðuneytið ítrekar að rannsókn málsins er ekki lokið, en treystir því að niðurstaða fáist sem fyrst, enda getur hvorki ráðherra né aðrir starfsmenn tjáð sig um efnisatriði þess fyrr en lögregla og ríkissaksóknari hafa lokið því verki.

4. júlí 2014
Frétt uppfærð.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira