Fundur sjávarútvegsráðherra landa við Norður-Atlantshaf
Árlegum fundi sjávarútvegsráðherra landa við Norður-Atlantshaf (NAFMC) lauk í gær í Illulisat á Grænlandi. Ráðherrar sem sátu fundinn auk Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Finn Karlsen gestgjafa frá Grænlandi voru Elisabeth Aspaker frá Noregi, Ilia Shestakov aðstoðarráðherra frá Rússlandi og Jacob Vestergaard frá Færeyjum. Auk þess voru sendinefndir frá Evrópusambandinu og Kanada.
Efni fundarins að þessu sinni var „loftlagsbreytingar og Norður Atlantshafið – göngumynstur stofna er að breytast“. Fulltrúar fundarins fluttu erindi um áhrif loftlagsbreytinga á sínum heimamiðum og áhrif þeirra á fiskveiðar og flota. Almennt var samhljómur meðal framsögumanna um að áhrifin væru farin að koma verulega fram. Sýnt var fram á hvernig dvalar- og göngusvæði hina ýmsu mikilvægu stofna hafa breyst á undanförnum áratug. Hvort sem í hlut ættu staðbundnir stofnar eða flökkustofnar.
Sigurður Ingi átti tvíhliða fundi með fulltrúum frá Kanada, Rússlandi, Noregi, Færeyjum og Grænlandi. Á fundinum með fulltrúa Kanada var farið yfir mikilvægi fiskveiða hvorrar þjóðar fyrir sig. Rædd voru málefni selastofnsins við Ísland og hvernig tekist var á við stærð stofnsins þegar hann var orðinn of stór og vandamál tengd sníkjudýrum í selum komin upp. Farið var yfir niðurstöðu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í sameiginlegu máli Noregs og Kanada gegn ESB um bann á viðskipti með selaafurðir. Þá var einnig rædd nauðsyn á úrlausn vegna tafa, sem eru tæknilegs eðlis, í flutningi á rækju milli Íslands og Kanada.
Á fundi með sjávarútvegsráðherra Færeyja ítrekaði Ísland afstöðu sína vegna umframveiði Færeyinga á norsk-íslenskri síld, en Færeyjar standa utan samkomulags strandríkja um skiptingu veiðiheimilda. Stofn norsk-íslensku síldarinnar stendur ekki vel og því sérstaklega mikilvægt að ná samkomulagi um skiptingu hans og koma í veg fyrir ofveiði. Málefni úthafskarfa á Reykjaneshrygg voru einnig rædd en staða stofnsins er alvarleg. Stærð hans er í sögulegu lágmarki, veiðar ganga illa en samt sem áður er of mikið veitt. Mikilvægt er að strandríkin þrjú, Ísland, Færeyjar og Grænland nálgist málið af festu á væntanlegum strandríkjafundi um úthafskarfa síðar í mánuðinum. Þá sammæltust ráðherrarnir um að hvetja til samtals hafrannsóknastofnanna Íslands og Færeyja um lúðustofninn og hvort um sama stofn sé að ræða í lögsögu Íslands og Grænlands.
Gestgjafinn, Finn Karlsen, hefur nýverið tekið við embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Grænlands og því var um fyrsta tvíhliða fund hans og Sigurðar Inga ræða. Farið var almennt yfir samstarf þjóðanna á sviði fiskveiða og rannsókna og þá sérstaklega á sviði makríls. Áhersla var lögð á áframhaldandi gott samstarf á sviði fiskveiða sem og öðrum sviðum þar sem mögulegt er að deila þekkingu eða færni. Einnig var farið yfir stöðuna á úthafskarfa á Reykjaneshrygg og mikilvægi ábyrgrar afstöðu á komandi strandríkjafundi líkt og á fundinum með Færeyingum.
Á fundi með sjávarútvegsráðherra Noregs var farið yfir sameiginlega hagsmuni Íslands og Noregs á sviði sjávarútvegs og mikilvægi samvinnu í erfiðum úrlausnarefnum þar sem hagsmunir fara saman. Báðir lögðu áherslu á mikilvægi þess að koma á strandríkjasamningi með þátttöku allra strandríkja í makríl. Þá var farið yfir þá stöðu sem uppi er vegna norsk-íslensku síldarinnar en Færeyingar taka sér nú tvöfaldan þann afla sem þeir höfðu í fyrra samkomulagi um skiptingu stofnsins. Bæði Ísland og Noregur lýstu óánægju með þá ákvörðun.
Á fundi með rússneska ráðherranum voru málefni úthafskarfa á Reykjaneshrygg rædd. Rússar hafa undanfarin ár staðið utan samkomulags um veiðar á úthafskarfa á Reykjaneshrygg og lýst sig ósammála ráðgjöf ICES um stöðu stofnsins. Ráðherrarnir sammæltust um að halda sameiginlegan fund vísindamanna Íslands og Rússlands með haustinu þar sem að skipst verður á upplýsingum og aðferðum um rannsóknir á stofnstærð karfa. Þá var farið yfir tvíhliða samkomulag Íslands og Rússlands, en Ísland lýsti sérstakri ánægju með að náðst hafi samkomulag um aukakvóta í Barentshafi.