Norski sjávarútvegsráðherrann kynnir sér íslenskan sjávarútveg
Elisabet Aspaker sjávarútvegsráðherra Noregs er hér á landi ásamt sendinefnd í tilefni norræns ráðherrafundar sem haldinn er á Selfossi í vikunni. Aspaker hefur undanfarna tvo daga kynnt sér íslenskan sjávarútveg og fundaði hópurinn m.a. með Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegsráðherra og íslenskum sérfræðingum.
Á fundinum var íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið kynnt fyrir norska ráðherranum og rædd voru pólitísk viðfangsefni tengd fiskveiðistjórnun auk þess sem Dr. Daði Már Kristófersson, forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, ræddi samspil veiða, vinnslu og markaðar.
Matís kynnti jafnframt nokkur af þeim verkefnum sem stofnunin vinnur að. Auk þessa ræddu fulltrúar frá fyrirtækjunum Vaska, Marel, Promens og Skaganum 3X um helstu drifkrafta nýsköpunar í þeirra fyrirtækjum og mikilvægi samstarfs og samtals við útgerðir og vinnslu í þeim efnum.
Aspaker og föruneyti heimsóttu einnig fyrirtækin Lýsi og HBGranda í þeim tilgangi að kynna sér frekar fullnýtingu afurða.