Hoppa yfir valmynd
25. júní 2014 Forsætisráðuneytið

Um skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna úthlutana forsætisráðuneytisins af safnliðum fjárlagaárin 2012-14

Forsætisráðuneytið fagnar úttekt þeirri sem Ríkisendurskoðun birtir í dag um úthlutanir ráðuneytisins á þremur safnliðum vegna fjárlagaáranna 2012-14. Úttektin staðfestir að forsætisráðuneytið fór að lögum við úthlutun styrkja bæði í tíð fyrri ríkisstjórnar, þegar ráðherranefnd um atvinnumál var starfandi, og þegar eftirstöðvum þeirrar fjárheimildar sem ráðherranefndin hafði áður haft aðkomu að var úthlutað í desember 2013. Undirstrika ber að fjárheimildin var felld niður að tillögu forsætisráðuneytisins í fjárlögum fyrir árið 2014. Þrátt fyrir framangreint telur Ríkisendurskoðun engu að síður að haga hefði mátt verklagi við styrkveitingarinnar með faglegri hætti. Þá lýsir Ríkisendurskoðun þeirri skoðun sinni að ráðuneytið hefði átt að leita nýrrar heimildar Alþingis til að ráðstafa ónýttum fjárheimildum ráðuneytisins eftir að ráðherranefnd um atvinnumál hafði verið lögð niður. Sú skoðun, sem ráðuneytið hefur alfarið lýst sig  ósammála, breytir ekki þeirri staðreynd að um gildar fjárheimildir var að ræða sem rétt og eðlilegt þótti að nýta. Loks gerir Ríkisendurskoðun athugasemdir við framkvæmd þingsályktunar um græna hagkerfið. Forsætisráðuneytið tekur þessar athugasemdir og ábendingar nú til skoðunar en áréttar fyrri skýringar sem réttlæta að fullu þá málsmeðferð sem viðhöfð var við veitingu styrkja í desember 2013 og nánar hefur verið gerð grein fyrir m.a. í svörum til Ríkisendurskoðunar og Alþingis.

Ríkisendurskoðun beinir þremur ábendingum til forsætisráðuneytis í þessu sambandi.


Ábendingarnar og viðbrögð forsætisráðuneytisins við þeim, sem birtar eru í skýrslunni eru eftirfarandi:


1. Setja þarf skýrar verklagsreglur um styrkveitingar

Ríkisendurskoðun beinir því til forsætisráðuneytis að það setji sér skýrar verklagsreglur um styrkveitingar í samræmi við almennar reglur stjórnsýslulaga, þ.m.t. jafnræðisreglu, og vandaða stjórnsýsluhætti. Reglurnar séu í takt við áherslur Alþingis frá árinu 2011 og faglegar reglur annarra ráðuneyta sem byggja á þeim, s.s. að ekki skuli ráðstafa fé af safnliðum til aðila sem þegar eru á fjárlögum, styrki skuli auglýsa opinberlega til umsóknar og að um þá skuli gera samninga sem kveða m.a. á um skyldur styrkþega og eftirlit með þeim verkefnum sem hljóta styrki. Reglurnar verða að vera öllum aðgengilegar.

Viðbrögð forsætisráðuneytisins við ábendingu 1.

Forsætisráðuneytið tekur undir ábendingu Ríkisendurskoðunar um að æskilegt sé að til staðar séu verklagsreglur um úthlutun styrkja í ráðuneytum sem reglulega úthluta styrkjum af safnliðum fjárlaga af því tagi sem fjallað var um í fréttatilkynningu Alþingis frá árinu 2011. Forsætisráðuneytið mun, komi til þess að slíkir safnliðir verði vistaðir í ráðuneytinu, setja sér slíkar reglur, en slíkir safnliðir hafa ekki verið vistaðir í forsætisráðuneytinu fram til þessa.

2. Framsetning fjárlagaliða verður að vera gagnsæ

Ríkisaðilar verða að setja fjárlagabeiðnir sínar fram í samræmi við fyrirmæli í lögum um fjárreiður ríkisins. Ríkisendurskoðun beinir því til forsætisráðuneytis að fjárlagabeiðnir þess séu ávallt skýrar og lýsandi og framsetning fjárlagaliða þannig að þingmenn og aðrir eigi auðvelt með að átta sig á tilgangi þeirra og fyrirhugaðri ráðstöfun fjárveitinga sem farið er fram á.

Viðbrögð forsætisráðuneytisins við ábendingu 2.

Forsætisráðuneytið mun hér eftir sem hingað til, í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, leitast við að setja fjárlagabeiðnir sínar fram með eins skýrum og lýsandi hætti og kostur er að teknu tilliti til aðstæðna, sbr. ákvæði laga um fjárreiður ríkisins.

3. Ábyrgðarskipting ráðuneyta á verkefnum skal vera skýr

Ábyrgðarskipting vegna opinberra verkefna verður að vera skýr en óljóst hefur verið hver beri ábyrgð á græna hagkerfinu. Forsætisráðuneyti þarf að skýra hvar sú ábyrgð liggur, hver fari með umsjón verkefna græna hagkerfisins og með hvaða hætti verkefnum þess verði fylgt eftir í framtíðinni.

Viðbrögð forsætisráðuneytisins við ábendingu 3.

Forsætisráðherra skipaði þann 26. september 2012 verkefnastjórn sem hafði það hlutverk að undirbúa gerð aðgerðaáætlunar um eflingu græns hagkerfis á Íslandi. Verkefnastjórninni var ætlað að forgangsraða þeim verkefnum sem fram koma í 50 töluliðum í þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi sem samþykkt var á 140. löggjafarþingi ásamt því að leggja mat á umfang verkefnanna og þann kostnað sem vinna við þau útheimti. Er þetta í samræmi við 2. tl. þingsályktunarinnar, en þar er forsætisráðuneytinu og Alþingi falið að vinna að eflingu græna hagkerfisins á Íslandi og sjá um að samþætta framkvæmd aðgerðaáætlunar á grundvelli tillagna Alþingis, með þátttöku allra ráðuneyta Stjórnarráðsins.

Verkefnastjórn skilaði tillögum sínum til forsætisráðuneytisins með skýrslu í janúar 2013 og hefur í framhaldinu fylgt því eftir við ábyrgðaraðila hvernig fé sem ætlað er til eflingar græna hagkerfisins á Íslandi, hefur verið varið. Skilaði verkefnastjórn nýlega ráðuneytinu skýrslu um árangur ábyrgðaraðila á síðasta ári.

Forsætisráðuneytið hefur því sinnt því hlutverki sem því var falið í þingsályktuninni og verður ekki fallist á að óljóst sé hver beri ábyrgð á græna hagkerfinu, enda enginn einn aðili ábyrgur fyrir því sem kallað hefur verið græna hagkerfið, heldur allir þeir ábyrgðaraðilar sem tilteknir eru við hvert og eitt hinna 50 verkefna sem talin eru upp í þingsályktuninni.

Ríkisendurskoðun gerir ekki athugasemdir við val verkefna sem hlutu styrk og telur að umsjónarferlið vegna styrkveitinga í desember 2013 hafi verið faglegt


Þrátt fyrir ýmsar athugasemdir telur Ríkisendurskoðun að forsætisráðuneytið hafi beint umsjón með styrkveitingum í faglegt ferli með því að fela Minjastofnun Íslands að annast samningagerð vegna styrkjanna, greiðslu þeirra og eftirfylgni með þeim verkefnum sem hlutu styrk. Um það segir Ríkisendurskoðun í skýrslu sinni: ,,Að mati Ríkisendurskoðunar eru verklagsreglur Minjastofnunar hvað þetta varðar skýrar og þeir samningar sem hún hefur þegar gert vegna þessara styrkveitinga í góðu samræmi við þær. Minjastofnun gerir staðlaða samninga við alla styrkþega og tryggir þannig samræmi í málsmeðferð, kröfum til styrkþega og eftirliti með verkefnum. Í samningunum kemur fram til hvaða verks styrkurinn var veittur og hverjar skyldur styrkþega séu. Fram kemur að styrkfjárhæð greiðist í tvennu lagi, 70% við undirritun samnings og afgangurinn við lok verks þegar fullnægjandi sönnun um verklok hefur borist stofnuninni. Eftirlitsheimildir Minjastofnunar eru skýrar sem og eftirlitsskylda hennar sem m.a. birtist í því að stofnunin skal samþykkja vinnuáætlun styrkþega og verklok og að gæði vinnu verða að samræmast kröfum hennar. Að sögn stofnunarinnar verða umræddir styrkir ekki greiddir út nema að skilyrðum hennar uppfylltum eins og á við um aðrar styrkveitingar sem hún hefur umsjón með.“ Þá gerir Ríkisendurskoðun engar athugasemdir við val þeirra verkefna sem hlutu styrki af umræddum fjárlagaliðum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum