Stór áfangi í því að auka öryggi íslenskra matvæla
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sleit í vikunni tímabundna verkefninu „örugg matvæli“ sem unnið hefur verið að frá því snemma á árinu. Verkefnið fól í sér kaup og uppsetningu á rannsóknartækjum og þjálfun starfsmanna Matís á rannsóknartækjum. Hér er um samstarfsverkefni þýskra og íslenskra stjórnvalda að ræða en þýskir sérfræðingar hafa séð um alla þjálfun á tækjabúnaðinn.
Íslensk yfirvöld, þá sérstaklega Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, eru nú betur í stakk búin til að framkvæma efnagreiningar á algengustu hættum í matvælum með aukinni vöktun. Þetta gerir stjórnvöldum jafnframt kleift að framfylgja betur löggjöf um matvælaöryggi og neytendavernd. Ávinningurinn af verkefninu felst ekki síst í því að tryggja betur öryggi neytenda hér á landi sem og að lækka eftirlitskostnað matvælaframleiðanda þar sem nú er hægt að gera ýmsar rannsóknir innanlands sem áður þurfti að sækja út í heim.
Ráðuneytið kann íslenskum aðilum verkefnisins bestu þakkir fyrir sitt framlag. Þá er tilefni til að þakka þýskum stjórnvöldum sérstaklega fyrir þeirra þátt í verkefninu með von um áframhaldandi jákvætt samstarf landanna á þessum vettvangi.