Drög að frumvarpi um kerfisáætlun til umsagnar
Á komandi haustþingi hyggst iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggja fram frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 þar sem kveðið verður með ítarlegum hætti á um hvernig standa skuli að gerð kerfisáætlunar um uppbyggingu flutningskerfis raforku.
Markmið frumvarpsins er að kerfisáætlun fái traustan grundvöll sem er nauðsynlegt fyrir áætlun sem lýtur að mikilvægum grunnkerfum landsins. Er þannig í frumvarpinu kveðið á um undirbúning kerfisáætlunar, efnislegt innihald og stöðu í stjórnkerfinu (m.a. gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaga). Auk þess er mælt fyrir um hlutverk Orkustofnunar við að staðfesta og hafa eftirlit með framkvæmd kerfisáætlunar. Jafnframt er það markmið frumvarpsins að einfalda fyrirkomulag leyfisveitinga þegar kemur að framkvæmdum við flutningskerfið og gera ferla skilvirkari og gagnsærri.
Við gerð frumvarpsins var m.a. tekið mið af nýlegri skýrslu nefndar um lagningu raflína í jörð og haft var samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, Landsnet og Orkustofnun.
Drög að frumvarpinu hafa verið birt á heimasíðu ráðuneytisins til almennrar kynningar og er öllum frjálst að senda inn athugasemdir vegna þeirra. Óskað er eftir að umsagnir berist eigi síðar en 20. ágúst. Samhliða frumvarpinu hyggst iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggja fram á haustþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og verða drög að þeirri þingsályktunartillögu einnig lögð fram til kynningar og umsagnar á vef ráðuneytisins á næstu vikum.