Hoppa yfir valmynd
27. júní 2014 Matvælaráðuneytið

Höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar

Fiskistofa
Fiskistofa

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, kynnti í ríkisstjórn í morgun áform um að efla starfsemi Fiskistofu á Akureyri og flytja höfuðstöðvar stofnunarinnar þangað. Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að „Mikilvægt sé að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, m.a. með dreifingu opinberra starfa…“ Opinberar úttektir sýna að á síðustu árum hefur opinberum störfum fjölgað á höfuðborgarsvæðinu, meðan þeim fækkar á flestum stöðum á landsbyggðinni.  

Fiskistofa er með fimm starfstöðvar á landsbyggðinni: Vestmannaeyjum, Stykkishólmi, Ísafirði, Akureyri og Höfn í Hornarfiði, en höfuðstöðvarnar eru í Hafnarfirði. Breytingarnar snúa eingöngu að flutningi höfuðstöðvanna. Tölvudeild Fiskistofu, sem rekin er sameiginlega með Hafrannsóknarstofnun, verður ekki flutt, auk þess sem reiknað er með að Fiskistofa verði með starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt er að því að flutningum verði lokið í lok næsta árs.

Öllum núverandi starfsmönnum býðst að flytja með stofnuninni norður.  Áætlað er að hluti af flutningi starfseminnar muni gerast vegna starfsmannaveltu þannig að ráðningar verða fyrst og fremst á Akureyri.  Velji starfsmenn að segja upp í tengslum við þessar skipulagsbreytingar, mun þeim bjóðast fagleg aðstoð við endurmenntun og atvinnuleit.     

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum