Hoppa yfir valmynd
27. júní 2014 Atvinnuvegaráðuneytið

Leyfilegur heildarafli fiskveiðiárið 2014-15. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fylgt til hlítar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur tekið ákvörðun um heildarafla tiltekinna fisktegunda fyrir næsta fiskveiðiár, 2014/2015. Ráðherra fylgir tillögum Hafrannsóknarstofnunnar um ráðlagðan heildarafla í öllum tegundum.

Sigurður Ingi: „Mér finnst mikilvægt að viðhalda orðspori okkar meðal fiskveiðiþjóða og á markaðssvæðum sem sjálfbær nýtingarþjóð sem byggir ákvarðanir sínar á vísindum. Mér finnst einnig  mikilvægt að við tryggjum sem best gæði og getu til rannsókna. Því kalla ég eftir  samstarfi og samráði  vísindamanna og sjómanna því reynsla sjómanna stangast stundum á við niðurstöðu  vísindanna.

Ástand nytjastofna á Íslandsmiðum er gott, eins og fram kemur í nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunar. Ráðgjöf stofnunarinnar í þorski, ýsu, ufsa og gullkarfa tekur mið af langtímanýtingarstefnu. Aflaregla í þorski er nú að renna sitt skeið, en umhverfis- og auðlindaráðherra hefur lögum samkvæmt, skipað samráðsnefnd um mótun langtímanýtingarstefnu fyrir fiskistofna til að fjalla um nýja aflareglu. Sigurgeir Þorgeirsson er formaður nefndarinnar, en auk hans eru í henni Guðrún Marteinsdóttir prófessor við Háskóla Íslands, Hugi Ólafsson skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar. Samráð verður haft við hagsmunaðila við endurskoðun aflareglunnar.

Gera má ráð fyrir að útflutningsverðmæti sjávarafurða næsta fiskveiðiárs verði sambærilegt við yfirstandandi ár.

Samhliða verður gefin út reglugerð sem felur í sér breytingu á leyfilegum heildarafla í makríl. Ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins (ICES) var hækkuð í 1.011 þúsund tonn í maí. Sigurður Ingi hefur því ákveðið að auka heildarafla íslenskra skipa í 167.826 tonn til  samræmis við þau 16,6% af ráðgjöf sem tekin var ákvörðun um í apríl.

Í meðfylgjandi töflu má sjá ákvörðun fyrir einstaka fisktegundir samanborið við ráðgjöf. Úr töflunni má lesa að heildarafli í þorski, gullkarfa, löngu, grálúðu og keilu er aðeins minni en ráðgjöfin. Þar er að hluta tekið tillit til væntra veiða Norðmanna, Færeyinga og Grænlendinga í lögsögunni í samræmi við tvíhliða samninga.

Fyrir fiskveiðiárið 1. september 2014 til 31. ágúst 2015 er leyfilegur heildarafli sem hér segir:

*Heildarrráðgjöf fyrir allt veiðisvæðið

Tegund

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar

2014/2015

Lestir

Ákvörðun um heildarafla

2014/2015

Lestir

Blálanga 3.100 3.100
Djúpkarfi 10.000 10.000
Grálúða 25.000* 14.100
Gullkarfi 48.000 45.600
Gulllax 8.000 8.000
Humar 1.650 1.650
Íslensk sumargotssíld 83.000 82.200
Keila 4.000 3.700
Langa 14.300 13.800
Langlúra 1.100 1.100
Litli karfi 1.500 1.500
Sandkoli 1.000 1.000
Skarkoli 7.000 7.000
Skrápflúra 0 0
Skötuselur 1.000 1.000
Steinbítur 7.500 7.500
Ufsi 58.000 58.000
Úthafsrækja 5.000 5.000
Rækja við Snæfellsnes 600 600
Ýsa 30.400 30.400
Þorskur 218.000 216.000
Þykkvalúra/Sólkoli 1.600 1.600

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta