Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2014 Atvinnuvegaráðuneytið

Álit umboðsmanns Alþingis um skyldu til hlutdeildarsetningar makríls


Í áliti embættis umboðsmanns Alþingis frá 30. júní 2014 í tilefni af kvörtun tveggja sjávarútvegsfyrirtækja er fjallað um ákvarðanir ráðherra sjávarútvegsmála með setningu reglugerða um stjórn makrílveiða og úthlutun á grundvelli þeirra árin 2010 og 2011, en það var meginsjónarmið félaganna að reglugerðir þessar hafi verið haldnar verulegum annmörkum og ráðherra hafi borið að „tryggja með reglugerð að við úthlutun á aflahlutdeild í makríl vegna ársins 2011 yrði aflahlutdeild einstakra skipa ákveðin á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við árin 2008-2010 þegar komin var samfelld veiðireynsla á makrílveiðum“, eins og rakið er í áliti embættisins.

Í álitinu er gerð grein fyrir aðdraganda að setningu þessara veiðistjórnarreglna og fjallað um samskipti ráðuneytisins og félaganna tveggja bæði á stjórnsýslustigi og fyrir embætti umboðsmanns Alþingis, þar sem málið hefur verið til athugunar frá í maí 2012. Í álitinu er einkum fjallað um hvort og þá hvenær skylda ráðherra til að ráðstafa aflahlutdeildum í makríl hafi verið virk samkvæmt lögum og talið að ekki verði annað séð en það hafi í síðasta lagi verið árið 2011. Í framhaldi þessa er athygli ráðuneytisins og Alþingis vakin á þeirri óvissu sem virðist uppi um stjórnun veiða á deilistofnum og hvatt til þess að skýrar verði í lögum kveðið á um heimildir stjórnvalda sjávarútvegsmála við slíkar aðstæður. Í álitinu segir loks að þar sé engin afstaða tekin til annarra ákvarðana stjórnvalda um stjórn á veiðum úr makrílstofninum, m.a. fyrirkomulag makrílveiða, stjórnvaldsfyrirmæla á því sviði eða úthlutunar stjórnvalda til einstakra skipa.

 

Í tilefni af álitinu er eftirfarandi tekið fram:

Norðaustur-Atlantshafsmakríll hefur undanfarin sumur átt tíðar göngur í íslenska fiskveiðilögsögu, veiðar hófust í litlum mæli árið 2005 og jukust verulega árið 2008 og hafa verið miklar síðan (sjá afla og veiðisvæði). Veiðar á makríl voru upphaflega frjálsar öllum íslenskum skipum en við undirbúning að setningu reglna um veiðistjórn á makríl 2010 var það mat þáverandi ráðherra að  mikilvægt væri að leyfi til veiða á makríl yrðu gefin út á einstök skip og að tekinn yrði frá afli fyrir aðila sem kæmu nýir að veiðunum.

Það virðist einnig hafa verið álit þáverandi ráðherra sjávarútvegsmála að kæmi til hlutdeildarsetningar á makrílstofninum væri ekki skylt að byggja einvörðungu á aflareynslu þar sem samfelld veiðireynsla teldist ekki fyrir hendi, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Við setningu reglugerðar um veiðistjórn á stofninum var ekki mælt fyrir um hlutdeildarsetningu heldur veiðstjórn með útgáfu veiðileyfa niður á einstök skip fyrir árið 2010. Að mestu var byggt á aflareynslu skipa en að hluta var leyfum úthlutað til skipa sem komu ný að veiðunum. Nokkrar tilfærslur voru gerðar milli flokka skipa við setningu reglna um veiðistjórn á makríl 2011 en að öðru leyti hefur því fyrirkomulagi sem sett var á fót með reglugerðinni frá 2010 verið að mestu endurnýjað til eins árs í senn.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að grundvöllur fiskveiðistjórnunarkerfisins skuli vera aflamarkskerfi. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur lýst því yfir að til athugunar væri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu hvernig standa mætti að aflahlutdeildarsetningu makríls. Við það að téð álit umboðsmanns Alþingis liggur nú fyrir eru betri forsendur en áður til staðar til undirbúnings að töku slíkrar ákvörðunar. Að öðru leyti er ekki ástæða til að fjalla að svo stöddu nánar um álitið eða þýðingu þess sem er í nánari athugun í ráðuneytinu.

 


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta