Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2014 Atvinnuvegaráðuneytið

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnir áform um sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hyggst leggja fram frumvarp um sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar á Alþingi. Áformin hafa verið kynnt starfsfólki beggja stofnana og drög að frumvarpi send helstu hagsmunaðilum til kynningar og samráðs. Æskilegt þykir að greina formlega nú frá áformum sameiningarinnar þó svo að allri greiningarvinnu sé ekki lokið þar sem samráðsferli er að hefjast.

Markmið sameiningarinnar er að búa til öfluga rannsóknastofnun og efla vísindalega þekkingu á umhverfi og lifandi auðlindum í hafi og ferskvatni. Í kjölfar sameiningarinnar má samnýta betur mannauð, búnað og þekkingu beggja stofnana. Hjá Hafrannsóknastofnun eru um 145 stöðugildi og Veiðimálastofnun um 20 stöðugildi. Með frumvarpinu er lagt til að öllu starfsfólki beggja stofnana verði boðið starf hjá sameinaðri stofnun. Um flutning starfa og réttarstöðu starfsmanna og forstjóra fer eftir ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með síðari breytingum. Reynslan sýnir að í fyrstu verður aukinn kostnaður við sameiningu umfram fjárhagslegan ávinning en til lengri tíma litið er gert ráð fyrir bæði faglegum og fjárhagslegum ávinningi. Unnið er að greiningu á húsnæðisþörf sameinaðrar stofnunar og sér Framkvæmdasýslu ríkisins um þann hluta.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir m.a. að ríkisstjórnin muni auka skilvirkni stjórnsýslunnar, m.a. með breytingum á skipulagi, samræmingu á stoðþjónustu, sameiningu stofnana og flutningi á milli sviða í samræmi við áherslur og forgangsmál.

Áður hafa verið unnar greiningar á fýsileika þess að sameina þessar stofnanir. Í skýrslu ParX ráðgjafaþjónustu frá 2010 um möguleika til frekari samþættingar við framkvæmd verkefna stofnana sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins kemur fram að „…í tillögu um samþættingu á starfsemi Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar felist faglegur-, stjórnunar- og rekstrarlegur ávinningur í þeim verkefnum sem heyri undir þær í dag. 

Samþykki Alþingi frumvarp um sameiningu stofnananna mun forstjóra nýrrar stofnunar falin framkvæmd sameiningar í samvinnu við starfsmenn og ráðuneyti,  þá bæði með tilliti til verkefna og stöðu starfsmanna við flutning starfa þeirra. 

Drög að frumvarpinu fylgja hér með í viðhengi með skýringum sem prentaðar eru eftir hverja grein til þæginda, en almenn greinargerð er ekki tilbúin. Eins og drögin bera með sér, hefur ekki verið ákveðið nafn á hinni nýju stofnun, og eins er um gildistöku laganna, þótt í 10. grein frumvarpsdraganna sé gert ráð fyrir 1. september 2015.Frestur til að skila inn athugasemdum við frumvarpið rennur út 8. ágúst.

Drög að frumvarpi um sameiningu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta