Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Erlendir áhrifaþættir bankahrunsins metnir

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vinnur næsta árið að verkefni þar sem metnir verða erlendir áhrifaþættir bankahrunsins haustið 2008. Í dag undirrituðu fjármála- og efnahagsráðuneytið og stofnunin samning vegna verkefnisins, en miðað er við að því ljúki sumarið 2015.

Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor hefur umsjón með verkinu, en það skiptist í fjóra meginhluta:

  • Rannsókn á forsendum bandaríska seðlabankans fyrir gjaldeyrisskiptasamningum og neitun á slíkum samningum
  • Rannsókn á forsendum breska fjármálaeftirlitisins fyrir lokun sumra banka í fjármálakreppunni 2007–2008 og björgun annarra
  • Rannsókn á forsendum bresku ríkisstjórnarinnar fyrir að nota lög gegn hryðjuverkum til að loka íslenskum banka
  • Mat á tjóni íslenskra banka og fyrirtækja á skyndisölu ýmissa eigna, sem knúin var fram með ákvörðunum erlendra stjórnvalda eða fyrirtækja
Innlendir og erlendir aðilar verða fengnir til aðstoðar, rætt við þá eða gagna aflað hjá þeim, eftir því sem kostur er. Þar má nefna hagfræðinga, fyrrum fjármála- og forsætisráðherra í Bretlandi, fyrrum seðlabankastjóra Bretlands, fyrrum bankastjóra seðlabanka New-York ríkis o.fl. Hvað íslenska banka og fyrirtæki snertir, má nefna að rætt verður við, eða aflað gagna hjá fyrrum forsvarsmönnum íslenskra banka og forsvarsmönnum slitastjórna bankanna.

Verkið verður unnið á tímabilinu júlí 2014 til júlí 2015, en undirbúningur hófst haustið 2013.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum