21. Landsmót hestamanna á Hellu.
Heimsmet var sett í 250 metra skeiði. Þá var kynbótakeppnin mjög sterk og aldrei hefur 4 vetra stóðhestur, Konsert frá Hofi, fengið jafn háa einkunn í kynbótadómi. Gæðingakeppnin var spennandi og einkunnir með hæsta móti svo fátt eitt sé nefnt.
Ráðherra landbúnaðarmála, Sigurður Ingi Jóhannsson, tók þátt í hópreið Landssambands hestamannafélaga á setningarathöfninni. Ráðherra sleit jafnframt mótinu með nokkrum orðum um gæðinga og afreksknapa þá sem fram komu. Auk þessa afhenti Sigurður Ingi verðlaun í A-flokki gæðinga en það var hestagullið, Spuni frá Vesturkoti, sem þar stóð efstur.
Mikil þróun hefur orðið í hestamennsku á Íslandi. Reiðmennska og árangur ungra knapa var að mati ráðherra til mikils sóma og tilhlökkunarefni að fylgjast með ungu knöpunum í framtíðinni. Það var eftirtektarvert hversu mikill árangur hefur náðst í ræktun gæðinga sem endurspeglast í enn sterkari og hærra dæmdum hestum ár frá ári, hvort sem er á kynbóta- eða gæðingavellinum.