Hoppa yfir valmynd
16. júlí 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Endurbætur á Arnarhvoli og gamla Hæstaréttarhúsinu

Að undanförnu hefur verið unnið að gagngerum endurbótum utanhúss á Arnarhvoli og gamla Hæstaréttarhúsinu. Ráðist var í framkvæmdir í kjölfar ítarlegrar ástandsskoðunar á húsunum sem leiddi í ljós ríka þörf á lagfæringum.

Haft var að leiðarljósi að útlit húsanna yrði í samræmi við upprunalegar teikningar af þeim en Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði báðar byggingarnar. Ytra byrði húsanna verður nú í fyrsta sinn í fullu samræmi við áform hans.

Mynd eftir Styrmi Kára Erwinsson

Í endurbótunum var gert við steypu- og múrskemmdir, öllum gluggum var skipt út og þak lagfært. Að lokum voru bæði húsin endursteinuð.
Á næstunni er stefnt að því að hefja endurbætur á Arnarhvoli innanhúss í því skyni að færa skipulag í nútímalegra horf og bæta úr bruna-, öryggis- og aðgangsmálum.
Arnarhvoll hefur þjónað ýmissi starfsemi á vegum ríkisins í hartnær 85 ár. Árið 1929 var í fjárlögum veitt heimild til þess að reisa á Arnarhólstúni byggingu sem hýsa skyldi opinberar skrifstofur. Brýn þörf þótti á þessu enda voru skrifstofur ríkisins dreifðar víða og oft í óhentugu leiguhúsnæði.

Húsið var upprunalega 428 fermetrar að grunnfleti, þrjár hæðir og kjallari . Fyrstu skrifstofurnar fluttu inn í Arnarhvol sumarið 1930. Fyrstu árin voru í húsinu m.a. Búnaðarbanki Íslands, Skipaútgerð ríkisins, lögreglan í Reykjavík, skrifstofur vegamálastjóra, teiknistofa húsameistara, skrifstofur landlæknis og tollstjórans í Reykjavík, skrifstofur lögmannsins í Reykjavík, Áfengisverslunar ríkisins, fræðslumálastjóra, Brunabótafélags Íslands, ríkisféhirðis og ríkisbókhaldsins og einnig skrifstofa gjaldkera Arnarhvols.

Mynd eftir Sigurhans E. Vigni

Listamaðurinn Ríkarður Jónsson var fenginn til að gera veglega útidyrahurð á húsið, sem enn prýðir það. Í hurðina eru skornar tvær myndir og sýnir önnur Ingólf Arnarson varpa öndvegissúlum sínum fyrir borð. Á hinni má sjá þræla Ingólfs þegar þeir fundu öndvegissúlurnar og er Esjan í baksýn.


Á árunum 1945-1948 var byggt við Arnarhvol en þegar viðbyggingin var tilbúin taldist húsið vera 744 fermetrar að grunnfleti en gólfflöturinn samtals 3.700 fermetrar. Á sama tíma var hús Hæstaréttar byggt, sem er áfast seinni áfanga Arnarhvols.

Þegar viðbyggingin var tekin í notkun voru ráðuneyti jafnframt komin með aðsetur í Arnarhvoli, þar á meðal fjármála-, atvinnumála-, samgöngumála- og viðskiptaráðuneyti, en fyrstu ráðuneytin komu í húsið árið 1939. Fjármálaráðuneytið er það ráðuneyti sem lengst hefur haft aðsetur í Arnarhvoli en þar hefur ráðuneytið verið til húsa óslitið frá árinu 1939.

Endurbæturnar sem unnið er að á Arnarhvoli og gamla Hæstaréttarhúsinu eru þær heildstæðustu sem gerðar hafa verið frá því húsin voru byggð. Endurbætur á húsunum hófust í byrjun október 2013 í kjölfar auglýsts forvals og útboðs í framhaldi. Framkvæmdasýsla ríkisins hélt utan um hvoru tveggja.
Kostnaðaráætlun vegna framkvæmdanna hljóðaði upp á 330,8 m.kr. á verðlagi ársins 2013 og er framvinda í samræmi við áætlanir. Áætluð verklok eru í lok júlí og er það einnig í samræmi við áætlanir.

Arnarhvoll er í húsverndarflokki 20. aldar bygginga með byggingarsögulegt, menningarlegt eða listrænt gildi. Ásýnd Arnarhvols og Hæstaréttarhússins frá Lækjartorgi, Hörpu og víðar er rótgróin borgarmyndinni og henni mikilvæg. Byggingarnar eru báðar teiknaðar í klassískum stíl og saman mynda þær heild í þyrpingu með Þjóðleikhúsinu, sem einnig var teiknað af Guðjóni Samúelssyni, Safnahúsinu og nýlegu dómhúsi Hæstaréttar.

Þessar endurbætur munu auka verðskuldaða virðingu húsanna og prýða ásýnd borgarmyndarinnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta