Hoppa yfir valmynd
18. júlí 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur lokið við drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum.

 

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur lokið við drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum. Þau fara nú í opið samráðsferli með birtingu á vef ráðuneytisins þar sem öllum gefst kostur að kynna sér efni þeirra og skila athugasemdum sínum og ábendingum til ráðuneytisins. Að því loknu verður farið yfir allar athugasemdir og þær hafðar til hliðsjónar við undirbúning endanlegs frumvarps sem fyrirhugað er að ráðherra leggi fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi.

Veittur er frestur til að gera athugasemdir við drögin til og með 6. ágúst 2014. Óskað er eftir að athugasemdir verði settar skilmerkilega fram og með vísan til tiltekinna greina frumvarpsins, þegar það á við. Athugasemdir sendist í tölvupósti á [email protected] með efnislínunni: „Breytingar á lögum um grunnskóla“.

Helstu nýmæli í frumvarpsdrögunum eru:

  •  Mælt er fyrir um breytt orðalag. Í stað orðsins „sérfræðiþjónusta“ kemur orðið „skólaþjónusta“.
  • Við 43. gr. bætast tvær nýjar málgreinar. Fyrri málsgreinin, sem verður 4. mgr., kveður á um að sveitarfélag er áfram ábyrgt fyrir að ákvæði grunnskólalaganna séu uppfyllt þrátt fyrir að það feli einkaaðila að reka eina grunnskóla sveitarfélagsins, í heild eða hluta, eða alla grunnskóla þess.
  •  Síðari málsgreinin, sem verður 5. mgr., er í þremur stafliðum. Þar er mælt fyrir um hvað skal tilgreina í þjónustusamningi sveitarfélags og einkaaðila, sem hyggst reka eina skóla sveitarfélags, í heild eða hluta, eða alla skóla þess. Sömu atriði skulu koma fram þegar sá einkaaðili fær viðurkenningu ráðherra. Í fyrsta lagi er mælt fyrir um skyldu til að tilgreina hlutverk skólanefndar sveitarfélags gagnvart skólahaldi. Í öðru lagi er kveðið á um að kennsla skuli vera nemendum að kostnaðarlausu og gjaldtaka af nemendum lúti sömu reglum og ef skólinn væri rekinn af viðkomandi sveitarfélagi. Í þriðja lagi er skylt að tilgreina rétt sveitarfélags til að yfirtaka starfsemina ef rekstraraðila verður ókleift að efna skyldur sínar samkvæmt þjónustusamningi.
  •  Mælt er fyrir um lagfæringu á tilvísun laganna til sveitarstjórnarlaga. Í breytingunni felst uppfærsla á tilvísunum til sveitarstjórnarlaga en ekki breytingar á heimildum sveitarfélaganna til samvinnu um grunnskólahald.
  • Mælt er fyrir um að allar ákvarðanir, sem teknar eru á grundvelli grunnskólalaga, verði sæti kæru til mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Drög þessi hafa verið unnin af mennta- og menningarmálaráðuneyti í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Aðdragandi vinnunnar var þríþættur.

 Í fyrsta lagi hefur verið uppi talsverð óvissa um hvert eigi að kæra ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli grunnskólalaganna. Hefur sú óvissa valdið vandkvæðum og dregið úr skilvirkni stjórnsýslunnar. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi eru ákvarðanir, sem kæranlegar eru til mennta- og menningarmálaráðuneytis, tæmandi taldar upp í 1. mgr. 47. gr. laganna. Aðrar ákvarðanir, sem teknar eru á grundvelli grunnskólalaganna, sæta kæru til innanríkisráðuneytis. Embætti umboðsmanns Alþingis hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að leita leiða til að leysa úr óvissu, sem af fyrirkomulaginu leiðir. Með því fyrirkomulagi, sem mælt er fyrir um í þessum drögum, er leitast við að leysa úr óvissu og tryggja þar með betur réttaröryggi borgaranna.

 Í öðru lagi kom fram vorið 2012 að tiltekið sveitarfélag hafði tekið ákvörðun um að fela einkaaðila rekstur eina grunnskóla sveitarfélagsins. Í kjölfarið skiluðu annars vegar mennta- og menningarmálaráðuneyti og hins vegar innanríkisráðuneyti áliti um hvort núgildandi grunnskólalög stæðu í vegi fyrir að sveitarfélögum væri heimilt að gera slíka samninga. Ráðuneytin komust að öndverðri niðurstöðu og var Trausta Fannari Valssyni, lektor í stjórnsýslurétti við lagadeild Háskóla Íslands, falið að fjalla um álitaefni tengd slíku fyrirkomulagi. Hann taldi gildandi grunnskólalög ekki standa í vegi fyrir því að sveitarfélög geti útvistað rekstri grunnskólahalds í heild sinni til einkaaðila. Í kjölfar álits Trausta var talið mikilvægt að bæta úr því lagaákvæði sem varðar annars vegar réttindi barna sem stunda nám í sjálfstætt starfandi skólum og hins vegar starfsumhverfi og skyldur hinna sjálfstætt starfandi grunnskóla.

 Í þriðja lagi var talið rétt að breyta orðalagi til samræmis við þá almennu málvenju sem tíðkast innan sveitarfélaganna.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum