Skilaboð Vestfirðinga til iðnaðar- og viðskiptaráðherra voru skýr
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra gerði víðreist um Vestfirði í síðustu viku, heimsótti fjölda fyrirtækja og fundaði með sveitastjórnum. Það dylst engum sú mikla uppbygging og sóknarhugur sem á sér stað á Vestfjörðum sér í lagi hvað varðar fiskeldi og ferðaþjónustu. Skilaboð Vestfirðinga voru skýr; ríkisvaldið þarf að tryggja að íbúar Vestfjarða sitji við sama borð og íbúar annarra landshluta varðandi samgöngur, orkumál og aðra innviði samfélagsins. Þá munu þeir eflast og dafna og treysta þjóðarhag.
Í ferðinni gafst kærkomið tækifæri til að ræða við bæjarstjóra og oddvita sveitarstjórna um þau mál sem að efst eru á baugi á þeirra heimavelli sem og samskipti þeirra og stjórnvalda. Þá fundaði ráðherra jafnframt með forsvarsmönnum Fjórðungssambands Vestfjarða, Markaðsstofu Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða.
Mikil uppbygging er í fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum og heimsótti ráðherra Fjarðarlax á Patreksfirði, Dýrfisk í Tálknafirði og Arnarlax á Bíldudal. Forsvarsmenn fyrirtækjanna lögðu þunga áherslu á að öll stjórnsýsla varðandi greinina yrði styrkt og leikreglur skýrðar. Þá væri mjög brýnt að framkvæma nauðsynlegar rannsóknir á því hve mikið fiskeldi hver fjörður þyldi án þess að það kæmi niður á náttúrunni.
Það er mikil gróska í alls kyns nýsköpunarfyrirtækjum sem eru hvert öðru efnilegra. Meðal þeirra sem ráðherra heimsótti má nefna Norðursalt á Reykhólum sem hefur vakið verðskuldaða athygli, Villimey í Tálknafirði sem býr til alls kyns heilsuvörur úr íslenskum jurtum, Fossadal á Ísafirði sem framleiða fluguveiðihjól með nýrri bremsutækni og seld eru um allan heim, Örnu sem sérhæfir sig í framleiðslu á hágæða laktósafríum mjólkurafurðum sem seldar eru undir vörumerkinu Arna. Og þá má ekki gleyma True West sem er alveg að fara að kynna til leiks nýja tegund af kaldhreinsuðu lýsi.
Sjávarútvegur er vitanlega grunnstoðin á Vestfjörðum og fundaði ráðherra með forsvarsmönnum Hraðfrystihússins Gunnvarar sem er stærsta fyrirtækið á Vestfjörðum og á sér 70 ára sögu. Samhliða sjávarútveginum blómstrar ýmis iðnaður og nýsköpun og heimsótti ráðherra m.a. vélsmiðjuna Loga á Patreksfirði sem er elsta fyrirtækið í bænum, 3x-Technology á Ísafirði sem er í fremstu röð í heiminum í smíði alls kyns tækja og tæknilausna fyrir sjávarútveginn og Kerecis á Ísafirði sem framleiðir lækningavörur úr þorskroði.
Ferðaþjónusta hefur vaxið hröðum skrefum á Vestfjörðum á undanförnum misserum og árum og skyldi engan undra – þvílík er fegurð náttúrunnar og gestrisni heimamanna. Ráðherra kynnti sér m.a. framgang verkefna sem fengu styrki nú í sumar úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Á Patreksfirði sannreyndi ráðherra gæði nýja Fosshótelsins á Patreksfirði og heimsótti Westfjords Adventures sem reka mjög metnaðarfulla ferðaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum.
Á Hótel Breiðuvík hefur átt sér stað glæsileg uppbygging og sömu uppbyggingarsöguna er að segja frá Stiklusteini á Bíldudal þar sem rekin er hvoru tveggja menningartengd ferðaþjónusta og hótel og þaðan er aðeins spölkorn á Skrímslasafnið. Á Hótel Ísafirði og Hótel Horni hefur nýtingin nánast verið 100% í allt sumar og sjá eigendurnir tækifæri svo langt sem augað eygir. Ekki síst í lengingu ferðamannatímabilsins og alls kyns hátíðum og viðburðum í bænum utan hins hefðbundna ferðamannatímabils. Þá var einkar áhugavert að kynnast hugmyndafræði forsvarsmanna Borea Adventures sem leggja áherslu á göngu- kayak-, skíða- seglbátsferðir með fámenna hópa sem njóta fyrir vikið töfra Vestfjarða á hinn eina sanna hljóðláta hátt. Og ekki má gleyma þeirri fjölbreyttu - og frábæru - flóru veitingahúsa sem er að finna um alla Vestfirði.
Ráðherra kynnti sér starfsemi Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum og Kalkþörungaverksmiðjunnar á Bíldudal sem vinnur kalk sem m.a. er notað til lyfjagerðar og áburðar. Og aðeins steinsnar þar frá er nýsköpunarfyrirtækið Hafkalk sem framleiðir ýmis konar fæðubótarefni m.a. úr kalkþörungum.