Alþjóðleg ráðstefna um orku- og olíumál í Stavangri
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sótti dagana 25. og 26. ágúst ráðstefnu ONS (Offshore Northern Seas) í Stavangri í Noregi. Um er að ræða alþjóðlega ráðstefnu og sýningu sem haldinu hefur verið árlega í 40 ár. Á ráðstefnunni var rætt um stöðu og framtíðarhorfur á sviði olíuleitar og -vinnslu, sem og þróun orkumála almennt í heiminum og tók ráðherra þátt í umræðum um þau mál. Nokkur íslensk fyrirtæki, og aðilar á sveitarstjórnarstigi, sóttu ráðstefnuna og átti ráðherra fund með þeim og fór með þeim um sýningarsvæðið, auk þess sem heimsóttar voru höfuðstöðvar NorSea Group sem er þjónustuaðili við olíuiðnaðinn.

Einnig átti ráðherra fundi með norska orku- og olíumálaráðherranum, Tord André Lien, og starfsfólki úr hans ráðuneyti. Í tengslum við það voru einnig haldnir fundir með norsku fagstofnunum á þessu sviði, þ.e. Petroleumtilsynet og Oljedirektoratet, þar sem rætt var mögulegt frekara samstarf íslenskra stjórnvalda við þessar fagstofnanir, m.a. við undirbúning og yfirfærslu á öllu regluverki sem snýr að heilsu-, öryggis- og umhverfismálum á sviði olíuleitar og -vinnslu. Jafnframt átti ráðherra fund með norska ríkisolíufélaginu Petoro sem á 25% hlut í þeim þremur leyfum sem veitt hafa verið til olíuleitar og -vinnslu á Drekasvæðinu.