Hoppa yfir valmynd
3. september 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Dagur íslenskrar náttúru nálgast

Dagur íslenskrar náttúru er 16. september

Undirbúningur vegna Dags íslenskrar náttúru, sem haldinn er hátíðlegur 16. september ár hvert, stendur nú sem hæst. Upplýsingar um viðburði, verkefni og uppákomur sem efnt er til í tilefni dagsins má senda á umhverfis- og auðlindaráðuneytið og verða þær þá birtar á heimasíðu dagsins á vef ráðuneytisins.

Dagskráin er í undirbúningi en undanfarin ár hafa ýmsir aðilar, s.s. stofnanir, félagasamtök, sveitarfélög, skólar og fleiri haft daginn í huga með einum eða öðrum hætti í sinni starfsemi. Umhverfis- og auðlindaráðherra efnir til hátíðarsamkomu þar sem Fjölmiðlaverðlaun ráðuneytisins og Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti verða afhent.

Að þessu sinni beinir umhverfis- og auðlindaráðuneytið athyglinni sérstaklega að mikilvægi þess að bera virðingu fyrir náttúrunni. Er hvatt til þess að tækifærið sé notað til að huga að umgengni um náttúruna; að hafa í heiðri einföld atriði s.s. að fara ekki út fyrir göngustíga á viðkvæmum svæðum, að hafa ekki á brott með sér náttúrugripi á borð við steina, egg eða gróður eða að skilja ekkert eftir úti í náttúrunni sem ekki á þar heima. Fátt spillir fagurri ásýnd náttúrunnar en rusl og slæm umgengni en fleira er þó undir því rusl og efni sem eftir verða í náttúrunni geta haft verulega mengandi áhrif á lífríki og vistkerfi. Með aukinni umferð um náttúrustaði okkar eykst til muna hættan á slíkri mengun og því hefur aldrei verið mikilvægara að við höldum vöku okkar í þessum efnum. 

Upplýsingar um viðburði má senda á netfangið [email protected]. Verður þeirra þá getið á heimasíðu Dags íslenskrar náttúru á www.uar.is 

Vefsvæði Dags íslenskrar náttúru 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum