Nýtt tengivirki Landsnets og Orkubús Vestfjarða á Ísafirði
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tók í dag formlega í notkun nýtt tengivirki Landsnets og Orkubús Vestfjarða á Ísafirði. Nýja tengivirkið er staðsett á iðnaðarsvæðinu á Skeið, innan við Ísafjarðarkaupstað, og er um samstarfsverkefni Landsnets og Orkubús Vestfjarða að ræða. Framkvæmdir hófust haustið 2013 og var heildarkostnaður um hálfur milljarður króna.
Afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum hefur ekki verið ásættanlegt og hefur það verið forgangsmál á undanförnum árum, bæði stjórnvalda, Landsnets og Orkubús Vestfjarða, að bæta þar úr. Með hinu nýja tengivirki, auk annarra framkvæmda sem nú standa yfir eins og bygging 10 MW varaaflstöðvar í Bolungarvík og endurbætur á Tálknafjarðarlínu 1 og Vesturlínu, mun raforkuöryggi á Vestfjörðum aukast til muna og er því um mikilvægan áfanga í orkumálum Vestfirðinga að ræða.