Hoppa yfir valmynd
9. september 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjárlagafrumvarp 2015

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2015 hefur verið lagt fram á Alþingi. Annað árið í röð er frumvarpið hallalaust, en gert er ráð fyrir 4,1 mia.kr. afgangi á næsta ári. Stöðugleiki og vöxtur sem styðst við ábyrga stjórn efnahagamála er inntak ríkisfjármálaáætlunar næstu ára.  Samhliða aðhaldssamri ríkisfjármálastefnu verður hlúð að velferðarkerfinu með auknum framlögum til almannatrygginga. 

Markmið fjárlagafrumvarps ársins 2015 er að tryggja áfram stöðugleika í efnahagsmálum og jafnvægi í ríkisfjármálum um leið og ráðstöfunartekjur heimilanna vaxa. Engin verðlagsuppfærsla verður á krónutölugjöldum- og sköttum fyrir árið 2015 sem munu styðja við stöðugt verðlag í landinu.

Skuldasöfnun ríkissjóðs hefur verið stöðvuð og þar með búið betur í haginn fyrir lækkun skatta á einstaklinga og fyrirtæki og niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs.  Skuldahlutfall ríkissjóðs af landsframleiðslu fer lækkandi og verður 74% í lok árs 2015 en var 90% árið 2011. Til að greiða niður skuldir og létta vaxtabyrðina enn frekar er stefnt að sölu ríkiseigna. Er í þeim efnum horft til sölu á næstu tveimur árum á um 30% hlut í Landsbankanum hf. til að greiða niður lán sem tekin voru til að endurfjármagna fjármálastofnanir í kjölfar bankahrunsins. 

Auknar fjárfestingar og verðmætasköpun í atvinnulífinu er eitt meginmarkið ríkisfjármálanna. Skilvirkara skattkerfi og lægri  skattar gegna þar lykilhlutverki. 

Stóraukin framlög til nýsköpunar og vísinda eru liður í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs sem miðar að því að fjárveitingar til málaflokksins nái 3,0% af vergri landsframleiðslu árið 2016. Aðgerðunum er ætlað að laða fram aukna fjárfestingu fyrirtækja í vísindum og nýsköpun og stuðla að aukinni framleiðni. Á næsta ári eykst framlag ríkisins um 800 m.kr. og 2 mia.kr. árið 2016.

Samhliða fjárlagafrumvarpinu eru lagðar fram tillögur um breytingar á virðisaukaskattskerfinu sem ætlað er að auka skilvirkni þess og jafnræði milli atvinnugreina. Meginbreytingin felst í því að draga úr mun milli skattþrepanna og breikka skattstofninn með því að fækka undanþágum. Efra þrepið lækkar úr 25,5% í 24% og hefur aldrei verið lægra. Lægra þrepið hækkar úr 7% í 12%. Undanþágur vegna afþreyingarferða (hvalaskoðun, hestaferðir, vélsleðaferðir o.fl.) eru felldar brott.  

Almenn vörugjöld verða afnumin en þau leggjast í dag á sykruð matvæli og drykkjarvörur (kr. á kg. eða lítra), byggingavörur (15%), varahluti í bíla (15%), stærri heimilistæki svo sem ísskápa og þvottavélar (20%) auk annarra raftækja eins og sjónvörp og hljómflutningstæki (25%). Niðurfelling almennra vörugjalda er mjög til einföldunar, felur í sér skattalækkun fyrir heimilin og tímabært afnám úreltrar neyslustýringar. Með þessu mun verð á ýmsum algengum neysluvörum lækka verulega með jákvæðum áhrifum á verðlag.  

Samhliða þessum breytingum verða barnabætur hækkaðar um 13% og af auknum þunga beint að tekjulægri foreldrum með því að auka skerðingarhlutföll vegna tekna um eitt prósentustig.  

Ráðstöfunartekjur hækka um 0,5% með breytingum á virðisaukaskattskerfinu, afnámi vörugjalda og hækkun barnabóta. Aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna, sem koma til framkvæmda haustið 2014, munu auka ráðstöfunartekjur heimilanna næstu árin um annað eins.

Afkoma ríkissjóðs

Í milljörðum króna
á verðlagi hvers árs
Frumvarp
2015
Áætlun
2014
Fjárlög
2014
Reikningur
2013
         
Tekjur ................................................. 644,5     669,1     613,1     591,4    
Gjöld .................................................. 640,5     631,0     612,1     592,2    
Heildarjöfnuður .................................. 4,1     38,1     0,9     -0,7    
sem hlutfall af VLF (%) ..................... 0,2     2,0     0,0     0,0    
Frumjöfnuður ..................................... 70,1     98,5     57,4     57,2    
sem hlutfall af VLF (%) ..................... 3,5     5,2     3,1     3,2    
Vaxtatekjur ........................................ 18,2     18,1     19,0     16,5    
Vaxtagjöld ......................................... 84,2     78,5     75,5     74,4    
Vaxtajöfnuður ................................... -66,0     -60,4     -56,5     -57,9    
sem hlutfall af VLF (%) ..................... -3,3     -3,2     -3,0     -3,2    

Helstu niðurstöður

 • Aðhaldssamri og ábyrgri stefnu áfram fylgt í ríkisfjármálum, frumvarpið hallalaust
 • Skattar lækka með afnámi almennra vörugjalda og breytingum á virðisaukaskattskerfi
 • Skuldahlutföll ríkisins lækka áfram
 • Samtals skila aðgerðir ríkisstjórnarinnar á fjárlagaárunum 2014 og 2015 almenningi hartnær 40 mia.kr. sem samsvarar um 5% af ráðstöfunartekjum 2013.

 Stuðningur við velferðarkerfið

 • Fjárhæðir barnabóta eru hækkaðar um 13%, auk 2,5% verðlagsuppfærslu, og skerðingarhlutföll vegna tekna foreldra eru hækkuð um eitt prósentustig.
 •  Framlög til almannatrygginga, (þ.e. lífeyristryggingar og félagsleg aðstoð) aukast um 2,4 milljarða, að frátöldum bótahækkunum en þær nema um 3 milljörðum til viðbótar. Aðallega er um að ræða hækkun frítekjumarks lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega og framlengingu á hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna öryrkja.
 • Ný og aukin framlög til heilbrigðismála að fjárhæð 1,8 milljarðar. Þau eru fyrst og fremst til styrkingar á rekstrargrunni spítala og heilsugæslu og til fjárfestingar í tækjum og búnaði.

Breytingar á virðisaukaskattskerfinu og afnám vörugjalda

 • Almenna skatthlutfallið í virðisaukaskatti lækkar úr 25,5% í 24% þann 1. janúar 2015.
 •  Lægra skatthlutfallið í virðisaukaskatti hækkar úr 7% í 12% þann 1. janúar 2015.
 • Undanþágum frá skattskyldu í virðisaukaskatti er fækkað og fólksflutningar í afþreyingarskyni verða gerðir skattskyldir í lægra skattþrepi virðisaukaskatts frá og með 1. maí 2015
 •  Almennt vörugjald er afnumið 1. janúar 2015. Um er að ræða vörugjald af ýmsum raftækjum og stærri heimilistækjum, byggingavörum, bílavarahlutum og vörum sem innihalda sykur og sætuefni.

Fleiri ráðstafanir

 • Aukin framlög til samgönguverkefna – 850 m.kr.
 • Aukin framlög til Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs – 800 m.kr
 • .Styrking á rekstrargrundvelli framhaldsskólanna – 400 m.kr. 
 • 5,4 milljarðar árið 2015 vegna framkvæmda á Bakka við Húsavík, byggingar fangelsis á Hólmsheiði og Norðfjarðarganga. 
Í greinargerð með frumvarpinu er að finna endurskoðaða og uppfærða áætlun um ríkisfjármálastefnuna til næstu fjögurra ára. Jafnframt er vakin athygli á því að allt efni fjárlagafrumvarpsins, talnayfirlit og greinargerðir, er birt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins um leið og frumvarpið hefur verið lagt fram á Alþingi. Vefslóð efnisins er www.fjarlog.is (http://www.fjarlog.is).

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum