Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsækir Humbersvæðið á Bretlandi
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þórður Ægir Óskarsson sendiherra Íslands í Bretlandi, heimsóttu svo kallað Humber-svæði í vikunni en hafnarborgin Grimsby er í hjarta þess.
Heimsótt voru fyrirtæki sem að hluta til eru í íslenskri eigu eða eiga í miklum viðskiptum við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Fundað var með Bresk-íslenska viðskiptaráðinu með áherslu á hvernig styrkja megi starfsemi þess. Ráðherra var einnig aðalræðumaður í kvöldverði tengdum „Humber Seafood Summit“ ráðstefnunni sem Sigurður Ingi og Þórður Ægir sóttu. Meginviðfangsefni ráðstefnunnar voru hvernig auka megi neyslu á sjávarfangi og fiskeldisafurðum, kröfur neytenda um ábyrgar veiðar og framleiðslu og hvernig best megi mæta þeim. Meðal ræðumanna var Jónas Viðarsson frá Matís sem flutti erindi undir yfirskriftinni „Scanning the horizon – trade and technology.“
Bretland er eitt mikilvægasta viðskiptaland fyrir íslenskar sjávarafurðir og nemur útflutningur þangað á undanförnum árum um 17-20% af verðmæti útfluttra sjávarafurða og stærstur hluti hans fer til Humber svæðisins. Ísland flutti löngum mest allra ríkja af sjávarafurðum til Bretlands. Noregur hefur sótt mjög á og flytur nú meira magn til Bretlands, en verðmæti íslenskra afurða er þó hærra.
Í heimsóknum ráðherra kom greinilega fram að umhverfi viðskipta með sjávarafurðir frá Íslandi er að breytast. Framboð á heilum fiski er að minnka með aukinni fullvinnslu á Íslandi. Þrátt fyrir þetta er mikilvægt að gæta að því hvernig viðhalda megi mikilvægu viðskiptasambandi landanna og aðlaga það að breyttu umhverfi. Til dæmis með aukinni fullvinnslu í neytendapakkningar fyrir breska neytendur.
Hér má sjá ræðu Sigurðar Inga og á twitter síðu ráðherra eru upplýsingar úr ferðinni.