Iðnaðar- og viðskiptaráðherra og framkvæmdastjóri orkumála innan ESB standa fyrir jarðhitahringborði í Brussel
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tók í dag þátt í hringborðsumræðum í Brussel um möguleika á sviði jarðvarma í Evrópu. Fundurinn var skipulagður af íslenskum stjórnvöldum og Gunther Oettinger, framkvæmdastjóra orkumála innan ESB. Fulltrúar frá fjölda íslenskra fyrirtækja á þessu sviði tóku þátt í fundinum, auk sérfræðinga víða að úr Evrópu.
Á fundinum var rætt um leiðir til að auka hlut jarðvarmanýtingar innan ESB, fyrst og fremst til húshitunar en einnig til annarra nota. Er ljóst að víða í Evrópu er mikill jarðhiti og miklir möguleikar til að nýta hann á kostnað annarra orkugjafa sem ekki eru endurnýjanlegir. Nýting jarðhita er í fullu samræmi við orku- og umhverfisstefnu ESB.
Hér er tengill á fréttatilkynningu frá framkvæmdastjórn ESB með nánari upplýsingum um jarðhitahringborðið.
Ráðherra átti einnig hádegisverðarfund með Oettinger þar sem að orkumál í Evrópu voru rædd. Að endingu fundaði ráðherra með forseta Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem farið var almennt yfir stöðu einstakra mála á vettvangi ráðuneytisins og ESA.