Sérstakur sjóður til að efla byggðarannsóknir settur á laggirnar
Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra byggðamála ávarpaði Byggðaráðstefnu Íslands 2014 sem haldin var á Patreksfirði 19. og 20. september. Yfirskrift ráðstefnunnar var; Sókn sjávarbyggða. Kemur framtíðin? Koma konurnar? Flutt voru mörg áhugaverð erindi bæði af erlendum og íslenskum fyrirlesurum og í kjölfarið sköpuðust góðar og málefnalegar umræður.
Á ráðstefnunni kynnti Sigurður Ingi sérstakan byggðarannsóknasjóð sem verður settur á laggirnar. Sjóðurinn mun hafa til ráðstöfunar allt að 10 milljónum króna á ári, næstu þrjú árin að minnsta kosti. Það er ljóst að það vantar gögn og fræðilegan grunn til að byggja á og erfiðlega hefur gengið að fjármagna byggðarannsóknir í gegnum samkeppnissjóðina sem til staðar eru. Vonast er til þess að öflugir rannsóknaraðilar sæki í sjóðinn og að komandi rannsóknir verði mikilsverður grunnur við mótun byggðastefnu.
Að ráðstefnunni stóðu Byggðastofnun, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Háskólasetur Vestfjarða og Vesturbyggð.
Blaðagrein ráðherra um ráðstefnuna - "Byggðarannsóknir, atvinnumál og Teigsskógur"
Í ferðinni tók ráðherra jafnframt þátt í vígsluathöfn ofanflóðavarnargarðanna Varðar og Vaka í Bolungarvík og er myndin tekin við það tilefni.