Hoppa yfir valmynd
25. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Málefni fatlaðs fólks: Brugðist við ábendingum Ríkisendurskoðunar

Skýrsla Ríkisendurskoðunar - forsíða
Skýrsla Ríkisendurskoðunar - forsíða

Ríkisendurskoðun hefur gefið út skýrslu um eftirfylgni við allmargar athugasemdir sem stofnunin beindi til velferðarráðuneytisins árið 2010 varðandi skipulag og stjórnun málefna fatlaðs fólks. Stofnunin telur þessi mál nú í ástættanlegum farvegi og ítrekar enga af fyrri athugasemdum sínum.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2010 var meðal annars gerð athugasemd við að ekki lægi fyrir formlega samþykkt heildarstefna um málaflokkinn og að fjárveitingar til þjón­ustu­aðila tækju ekki mið af lögbundnu mati á þjónustuþörf. Þá væri kostnaður vegna þjónustunnar ekki bókaður með sam­bæri­legum hætti hjá þjónustuaðilum sem hamlaði sam­an­­burði, megin­þættir í fag­legri starf­semi þjón­­ustu­­­aðila fylgdu ekki samræmdum verk­lags­­reglum og því óvíst að þjón­usta þeirra væri jöfn að gæðum. Loks taldi Ríkisendurskoðun að eftirlit ráðuneytisins (þá félags- og tryggingamálaráðuneyti) með starf­semi þjón­ustu­aðila væri ófull­nægj­­andi. Til dæmis hefði ekki verið safnað samræmdum upp­lýs­ing­um um starfsemi þeirra frá árinu 2004 og því óljóst hvort jafnræði ríkti meðal þjónustuþega.

Í eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar segir að stjórnvöld vinni að því að bregðast við ábendingum stofnunarinnar. Sú vinna sé í ásættanlegum farvegi og ábendingarnar því ekki ítrekaðar.

Margt hefur breyst í málefnum fatlaðs fólks frá því að Ríkisendurskoðun skrifaði skýrslu sína árið 2010. Þann 1. janúar 2011 fluttist ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk voru samþykkt frá Alþingi í júní 2011. Stofnuð var sérstök réttindavakt og ráðnir réttindagæslumenn sem starfa í öllum landshlutum. Um mitt ár 2012 samþykkti Alþingi ályktun um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Unnið hefur verið að innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar við fatlað fólk (NPA). Við yfirfærslu ábyrgðar á þjónustu við fatlaða til sveitarfélaga vann Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands viðamikla könnun á viðhorfum notenda til þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Sambærileg rannsókn var gerð á þessu ári sem liður í því að meta hvernig yfirfærslan hefur tekist.

Starfshópur vinnur nú að endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga í samræmi við bráðabirgðaákvæði í lögum um málefni fatlaðs fólks og er í þeirri vinnu tekið mið af meginreglum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Einnig er að störfum samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks sem vera skal félags- og húsnæðismálaráðherra og sveitarfélögum til ráðgjafar um málefni fatlaðs fólks, hafa umsjón með framkvæmd á yfirfærslu þjónustu við fatlaða, gera tillögur um breytingar á tilhögun yfirfærslunnar eftir því sem ástæða er til, stýra endurmati yfirfærslunnar og fjalla um vafamál og álitaefni sem upp kunna að koma.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira