Hoppa yfir valmynd
8. október 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ræða fjármála- og efnahagsráðherra á ráðstefnunni ,,Leiðin úr höftum” í Háskóla Íslands

Ræða Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra á ráðstefnunni ,,Leiðin úr höftum”  sem haldin var í Háskóla Íslands 8. október 2014 og tileinkuð Jónasi Haralz.

Ágætu fundargestir

Í viljayfirlýsingu um áform íslenskra stjórnvalda vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum segir, að til að koma í veg fyrir öldu gjaldþrota og auka enn á þann samdrátt sem þegar var kominn fram, telji stjórnvöld það forgangsverkefni að Seðlabanki Íslands komi á stöðugleika í gengi krónunnar. 
Vegna skammtímaþrýstings á gengi krónunnar voru vextir hækkaðir, aðgangur að lánum hjá Seðlabankanum þrengdur, gjaldeyrisforðinn styrktur og höftum komið á. 

,,Við gerum okkur ljóst að slík höft hafa talsverð neikvæð áhrif og hyggjumst afnema þau svo fljótt sem auðið er. Þau eru nauðsynleg til bráðabirgða þar til við höfum tryggt að stjórntæki peningamálastefnu okkar séu rétt stillt til að fást við mikla óvissu og skort á trausti í kjölfar bankahrunsins,” segir í yfirlýsingunni. 
Gildistími haftanna var í upphafi miðaður við samstarfsáætlun stjórnvalda og AGS og áttu þau samkvæmt því að gilda í tvö ár. Það fór sem fór. Ég tel að engan hafi órað fyrir því á þessum tíma að við yrðum hér sex árum síðar, enn í höftum. Nema hvað við höfum heldur hert á þeim. 

Í heimskreppunni í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar var höftum komið á til að verja krónuna og gjaldeyrisstöðu Landsbanka Íslands. Þau áttu auðvitað sömuleiðis að vera tímabundin en vörðu, þegar allt er talið, í 60 ár. 
Þegar ný gjaldeyrishöft voru borin undir dr. Jónaz Haralz í Fréttablaðinu haustið 2008 sagðist hann ekki hafa áhyggjur af því að við myndum fara inn í annað eins haftatímabil. Tímarnir væru breyttir og hugsunarhátturinn annar. Íslendingar ættu líka í fleiri hús að venda og hefðu Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að bakhjarli.

Hann bætti að vísu við að við hefðum ekki gert neitt af okkur þegar höftum var komið á í fyrra sinnið, og mikið traust hefði verið borið til Íslendinga erlendis.

Ég tel að þessi síðustu orð megi skoða í ljósi aðstæðna á þessum tíma, í lok nóvember 2008. Það er rétt að við áttum við margvísleg vandamál að stríða, höfðum fengið á okkur hryðjuverkalög, stóðum í milliríkjadeilu við vinaþjóðir og áttum mikið verk fyrir höndum til að endurvinna traust. 

En við, og aðrir, áttum einnig enn eftir að öðlast betri yfirsýn yfir þær efnahagslegu hamfarir sem dundu yfir um þetta leyti og teygðu anga sína víða um heim. 

Reyndar verður að setja fall bankanna, afleiðingar þess fyrir íslenskt efnahagslíf og viðbrögðin við því í mannlegt samhengi. Fyrir mína kynslóð, sem hafði siglt nokkuð lygnan sjó fram til þessa, var þetta allt að því óhugsandi áfall. Að horfa upp á stórlækkun eignaverðs og verulega hækkun skulda, fyrirtækin riða og sum hver falla og þurfa við hvert fótmál að taka nýtt skref inn í óvissuna var erfitt. Atvinnuöryggi var í raun og veru ekkert. Við bættist stjórnmálalegur óróleiki, sem endaði með minnihlutastjórn og svo loks kosningum til Alþingis vorið 2009. Í október 2008 þurrkuðust tólf ár úr Kauphöll Íslands. Úrvalsvísitalan fór á svipaðar slóðir og 1996. 

Við vitum öll að þetta var verulega erfitt fyrir allan almenning, fyrir þá sem þurftu að takast á við endurreisn fjármálakerfisins, fyrir stjórnkerfið og fyrir Alþingi. Það var ekki til nein handbók um viðbrögð við allsherjarhruni fjármálakerfis, ekki frekar en nú er til handbók um afnám hafta.

Þá var gagnlegt að hlusta á menn eins og Jónas Haralz tala um söguna, rifja upp erfiðar aðstæður og vita að við höfðum áður tekist á við erfiðleika og komist í gegnum þá. Ég minnist þess að hafa ekið eftir Miklubrautinni eitthvert síðdegið á þessum tíma, og heyrt viðtal við Jónas í útvarpinu, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að líklega hefði íslenskt efnahagslíf orðið fyrir erfiðara áfalli í lok sjöunda áratugarins, þegar síldin hvarf. 

Þetta var á einhvern einkennilegan hátt dálítið hughreystandi. Jónas var ekki að bæta böl með því að benda á annað verra, einungis að ræða staðreyndir. Á sjöunda áratugnum var íslenskt atvinnulíf mun fábrotnara og stoðirnar sem hægt var að styðjast við veikari þegar meiriháttar aflabrestur varð. 

Þótt bólan í fjármálakerfinu spryngi með hvelli árið 2008 áttum við mikilvægar auðlindir. Aðstæður í hafinu voru góðar, það fiskaðist vel og við fengum óvæntan happdrættisvinning í formi mikillar makrílgöngu inn í fiskveiðilögsöguna. Álverð hefði mátt vera hagstæðara, en við nutum samt sem áður ágætra útflutningstekna af orkufrekum iðnaði og höfðum byggt upp á því sviði árin á undan. Eftir stuttan samdrátt skömmu eftir efnahagshrunið tók ferðaþjónustan verulegan kipp og hefur notið veikara raungengis krónunnar, eins og aðrar útflutningsgreinar. 

Þegar hér er komið sögu, árið 2014, er raunin sú að við höfum náð snarpari og sterkari viðspyrnu en flestir áttu von á og fá dæmi um viðlíka viðsnúning hjá öðrum ríkjum. Engin vafi er á því í mínum huga að fyrir utan sterka innviði og vel menntað vinnuafl hefur afar sterk skuldastaða ríkisins í upphafi kreppunnar ásamt með sjálfstæðum gjaldmiðli skipt hér sköpum.  

- - -

Ég hef ósjaldan rætt mikilvægi þess að losna undan höftum allt frá því að málið var kynnt fyrir mér sem þingmanni í stjórnarflokki haustið 2008, öll fjögur árin í stjórnarandstöðu og í síðustu alþingiskosningum. Um nauðsyn þess að afnema höft er í sjálfu sér lítill ágreiningur, en það er tekist á um leiðir og það hefur reynst nokkuð flókið að skilja þá krafta sem búa að baki höftunum. 

Í margra huga eru höftin fyrst og fremst tengd uppgjöri slitabúa föllnu bankanna, en reyndin er sú að höftin hvíla á öllu efnahagslífinu. Á mér og ykkur, heimilum, fyrirtækjunum og lífeyrissjóðum. Öllum. 

Vissulega eru venjuleg heimili alla jafna ekki í miklum fjármagsviðskiptum milli landa en það er hamlandi og tímafrekt fyrir alla þá sem rekast á höftin að sækja um undanþágur og með þeim er athafnafrelsi takmarkað. Viðskiptaráð Íslands hefur metið árlegan fórnarkostnað fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi í tugum milljarða.

Það verður heldur ekki litið fram hjá því að höftin eru ákveðið varúðarmerki fyrir erlenda fjárfesta, ég hef stundum sagt að þau séu eins og skuggi yfir efnahagslífið, eða blikkandi ljós sem sýna að hér sé eitthvað að varast, og því er ekki nema von að erlendir fjárfestar velti fyrir sér hvort þeir eigi að treysta umhverfi sem virðist ekki treysta sér til að spjara sig án haftanna. Gildir hér einu þótt nýfjárfestingar séu undanþegnar. Tilvist haftanna ein og sér sendir skilaboð um að ekki sé allt eins og það eigi að vera. Það eitt að þurfa að útskýra hvernig haftareglurnar virka og að hér sé ekki um skuldavanda ríkisins að ræða, heldur greiðslujafnaðarvanda, það eitt að standa í þessu er til tjóns. - Því má bæta við hér að það er mín reynsla af samskiptum við ýmsa erlenda aðila að margir virðast hafa gefið sér að höft séu hér á landi vegna óviðráðanlegra ríkisskulda.  

Til að skapa ákjósanleg skilyrði til afnáms hafta skiptir viðskiptajöfnuðurinn verulegu máli. Því þarf að líta til þess hvernig liðka megi fyrir undanþáguferlinu, draga úr skaðsemi haftanna á meðan þau vara, og ýta þannig undir frekari vöxt og viðgang gjaldeyrisskapandi starfsemi. 

- - -

Ég held að það megi með sönnu segja að við stöndum nú á nokkrum tímamótum. 

Í efnahagslífinu ríkir stöðugleiki. Hagvöxtur, betra atvinnuástand, lítil verðbólga og batnandi vaxtakjör á erlendum mörkuðum - allt er þetta góðs viti. Með markvissum aðgerðum hefur verið unnið gegn aflandskrónuvandanum og hefur krónustabbinn lækkað um helming frá haustinu 2008. 

En þótt helstu hagvísar séu góðir er nauðsynlegt að fara mjög varlega. Þetta er langt frá því að vera einfalt verkefni. 

Meginatriði í mínum huga er að við höfum þegar tekið út þá erfiðu en nauðsynlegu aðlögun sem efnahagslífið – heimilin og fyrirtækin - þurftu að fara í gegnum. Þetta höfum við þegar gert. Raungengið lækkaði verulega og við þekkjum öll afleiðingarnar. Eigendaskipti að öllum stórum fyrirtækjum. Kosningarnar 2013, þegar næstum fimm ár voru liðin frá falli bankann - snerust að verulegum hluta um afleiðingar þessara hluta fyrir heimilin. Því segi ég: Við höfum þegar tekið á okkur verulegan skell og lausn á haftamálunum þurfa að taka mið af því.

Þær þurfa því ekki einungis að vera efnahagslega raunhæfar heldur þurfa þær um leið að uppfylla sanngjarnar samfélagslegar væntingar um að ekki sé von á nýrri kollsteypu. Og þær þurfa einnig að vera pólitískt framkvæmanlegar. 

Við verðum jafnframt að hafa augun opin fyrir ýmsum áhættuþáttum, vera við því búin að skjótt geti skipast veður í lofti þótt vel spái um þessar mundir. Byggja ekki lausnir okkar á of mikilli bjartsýni um að hlutir hér hljóti allir að þróast á besta veg næstu árin. 

Þrátt fyrir takmarkanir haftanna búum við ekki í lokuðu hagkerfi og hagsmunir okkar eru nátengdir efnahagslegu ástandi og hagsveiflu helstu viðskiptalanda okkar. Þróun á erlendum fjármálamörkuðum getur haft áhrif á viðskiptakjör og vaxtakostnaður getur aukist. Það beinir enn frekar augum að mikilvægi þess að draga úr skuldum hins opinbera. 

- - -

Á þessu ári, undanförnum mánuðum og reyndar frá því seint á síðasta ári, hefur mikil vinna farið fram í stjórnkerfinu, meðal annars í samstarfi við þá ráðgjafa sem kallaðir hafa verið að málinu, til að skoða alla fleti málsins og þróa lausnir. Ég geri þá kröfu að á yfirstandandi ári verði mikilvægum spurningum svarað til að hægt sé að taka næstu skref. Þær snúa meðal annars að því hvort raunhæft sé leysa málefni slitabúa án beinnar aðkomu stjórnvalda. 

Við vinnum að þessu máli á grundvelli þess að skapa megi heildstæða lausn. Um leið og þjóðarhagsmunir verða lagðir til grundvallar þarf að sama skapi, við lausn þessa máls, að virða lög, alþjóðlegar skuldbindingar og tryggja jafnræði. 

Allir sem áhuga hafa á þessu máli og hafa reynt að skilja það til botns gera sér grein fyrir því að einn vandasamasti þáttur málsins er að stuðla að því að eftir afnám hafta muni gengi krónunnar endurspegla raunhagkerfið. Þannig þarf greiðslujöfnuður að taka tillit til raungengismarkmiða. 

Þetta tengist því sem ég sagði áðan um að við viljum búa þannig um hnútana að við þurfum ekki að taka aðra kollsteypu. 

Aðgerðir sem taka minni tíma, eru einfaldari og lágmarka lagalega áhættu verða teknar fram yfir flóknari, og einstakar aðgerðir munu þurfa að samrýmast heildarlausninni.

Ef þeir sem sækjast eftir undanþágum frá fjármagnshöftunum leggja ekki fram raunhæfar hugmyndir til að mæta þessum sjónarmiðum og fleirum sem enn er unnið að, liggur fyrir að forgangsraða verður í þágu raunhagkerfisins. 

Með öðrum orðum þýðir þetta það að næstu skref í afnámi verða ætíð tekin með hagsmuni heimila og fyrirtækja að leiðarljósi. 

Viðbrögð einstakra aðila, sem hér eiga mikla hagsmuni undir, eiga ekki að tefja skynsamlegar tilslakanir á höftum, sem eru afar brýnar fyrir frekari vöxt íslensks efnahagslífs og forsenda eðlilegs viðskiptaumhverfis landsins.

Að því sögðu tek ég fram að við erum með eyrun opin og hlustum á allar uppbyggilegar hugmyndir, sem menn hafa ekki endilega látið sér detta í hug innan stjórnkerfisins, - við hlustum á tillögur að undanþágum sem þjóna því markmiði að bæta hagkerfið og skila okkur fram á við.

Fyrir þá sem ábyrgð bera á framgangi málsins er að síðustu mikilvægt að gera sér grein fyrir því að það verður ekki hægt að reikna út allar mögulegar útkomur, eyða allri áhættu og sjá fyrir hegðun fjárfesta langt fram í tímann. Þess vegna þarf, þegar fullnægjandi undirbúningur hefur farið fram, einfaldlega að taka ákvörðun. 

Á endanum snýst þetta mál um bestu mögulegu niðurstöðu fyrir hagsæld íslensku þjóðarinnar í bráð og lengd og undir þeim formerkjum verður áfram unnið ötullega að afnámi gjaldeyrishaftanna. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira