Hoppa yfir valmynd
13. október 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Drög að frumvarpi til laga um nýja stjórnsýslustofnun á sviði menntamála - Menntamálastofnun

Mennta- og menningarmálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp til laga um nýja stjórnsýslustofnun á sviði menntamála á 144. löggjafarþingi.

Mennta- og menningarmálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp til laga um nýja stjórnsýslustofnun á sviði menntamála á 144. löggjafarþingi. Nú liggja fyrir drög að frumvarpi sem byggja m.a. á niðurstöðu greiningar mennta- og menningarmálaráðuneytis á verkefnum sem það, Námsgagnastofnun og Námsmatsstofnun sinna í dag. Einnig var núverandi stofnanaskipulag greint sem og samlegðaráhrif verkefnanna. Niðurstaðan var sú að það kynni að hafa jákvæð áhrif, bæði faglega og rekstrarlega, að þessum verkefnum yrði sinnt innan einnar og sömu stofnunar. Í kjölfarið voru lögð drög að mögulegu verksviði nýrrar stofnunar, sambærilegar erlendar stofnanir  voru skoðaðar og lagðar fram fyrstu hugmyndir að framtíðarsýn fyrir nýja stofnun. Í framhaldi af því var stofnaður starfshópur um undirbúning fyrirhugaðrar stofnunar og vinnuhópar skipaðir starfsfólki Námsmatsstofnunar, Námsgagnastofnunar og ráðuneytisins. Í apríl 2014 lá fyrir endanleg greinargerð.

Verði frumvarpið að lögum mun Menntamálastofnun m.a. hafa umsjón með námsgagnagerð, námsmati, greiningu og gæðamati. Það gefur aukin tækifæri til að styrkja nauðsynleg tengsl milli aðalnámskráa, námsgagna, námsmats og gæðamats og til að vinna að umbótum á grundvelli þessa.

Með frumvarpinu er leitast við að skerpa og styrkja stjórnsýslu menntamála, gæðastarf og þjónustu við skóla. Verði frumvarpið að lögum er fyrirhugað að fela stofnuninni að sinna verkefnum Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar og tilteknum verkefnum sem ráðuneytið sinnir nú samkvæmt lögum um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og framhaldsfræðslu.

Frumvarpsdrögin fara nú í opið samráðsferli með birtingu á vef ráðuneytisins þar sem öllum gefst kostur að kynna sér efni þeirra og koma að athugasemdum sínum og ábendingum til ráðuneytisins. Að því loknu verður farið yfir allar athugasemdir og þær hafðar til hliðsjónar við undirbúning endanlegs frumvarps sem fyrirhugað er að ráðherra leggi fyrir Alþingi á 144. löggjafarþingi.

Meginefni fyrirliggjandi frumvarpsdraga felast m.a. í að:

  • Mælt er fyrir um að sett verði á fót stjórnsýslustofnun á sviði menntamála, Menntamálastofnun. Stofnunin skal stuða að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu menntunar í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið.
  • Menntamálastofnun mun leysa Námsgagnastofnun og Námsmatsstofnun af hólmi. Stofnunin mun sinna þeim verkefnum sem þær stofnanir sinna í dag auk verkefna sem ráðherra felur stofnuninni, t.a.m. ýmsum stjórnsýsluverkefnum sem nú er sinnt í mennta- og menningarmálaráðuneyti.  
  • Gert er ráð fyrir stofnun fagráða fyrir helstu verksvið stofnunarinnar, sem skipuð verða sérfróðum aðilum á viðkomandi sviði. Fagráð verða stofnuninni til ráðgjafar og aðstoðar. Ekki er gert ráð fyrir sérstakri stjórn til að hafa eftirlit með starfsemi stofnunarinnar í samræmi við stefnu sem mörkuð hefur verið um stjórnun stofnana á undanförnum árum.
  • Menntamálastofnun verður heimilt að kalla eftir og vinna með persónugreinanlegar upplýsingar.
  • Mælt er fyrir um sérstakt heimildarákvæði í 6. gr. frumvarpsins.
  • Menntamálastofnun verður heimilt að innheimta þjónustu- og vörugjöld fyrir sérþjónustu samkvæmt 7. gr. frumvarpsins og skal stofnunin birta gjaldskrá með aðgengilegum hætti, t.d. á heimasíðu sinni.
  • Frumvarpsdrögin hafa að geyma heimild fyrir ráðherra til að kveða nánar á um framkvæmd laganna með reglugerð.
  • Verði frumvarpið að lögum munu þau þegar taka gildi en koma til framkvæmda 1. janúar 2015. Fyrirhugað er að stofnunin taki til starfa um áramót en hinsvegar þarf að gera ýmsar ráðstafanir fyrir þann tíma, t.d. ráða starfsfólk ef þess verður þörf.

Rétt er að benda á að um er að ræða skjöl í vinnslu, sem mögulega eiga enn eftir að taka breytingum áður en þau verða lögð fram með formlegum hætti. Veittur er frestur til að gera athugasemdir við drögin til og með 26. október 2014. Óskað er eftir að athugasemdir verði settar skilmerkilega fram og með vísan til tiltekinna greina frumvarpsins, þegar það á við. Athugasemdir sendist í tölvupósti á [email protected] með efnislínunni: „Frumvarp til laga um Menntamálastofnun“.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira