Fjármála- og efnahagsráðuneyti óskar eftir umsögnum við drög að nýrri reglugerð um milliverðlagningu. Drögin eru unnin af starfshóp sem skipaður var fyrr á árinu, en í honum eiga sæti fulltrúar frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og ríkisskattstjóra.
Þann 21. desember 2013 voru lögfestar hér á landi sérstakar reglur um milliverðlagningu. Nýju milliverðlagningarreglurnar er að finna í 3.-6. mgr. 57. gr. tekjuskattslaga og komu þær til framkvæmda 1. janúar á þessu ári.
Með hinum nýju milliverðlagningarreglum voru lögfest sérstök ákvæði um milliverðlagningu. Þá var ráðherra veitt heimild til þess að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd reglna um milliverðlagningu, meðal annars um kröfur varðandi skjölun við ákvörðun milliverðlagningar.
Unnt er að senda umsögn um reglugerðardrögin á netfangið postur@fjr.is til og með 20. október næstkomandi.