Hoppa yfir valmynd
14. október 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samkomulag vegna innleiðingar reglugerða um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði

Adrian Hasler forsætis- og fjármálaráðherra Liechtenstein, Bjarni Benediktsson, Siv Jensen fjármálaráðherra Noregs og Michel Barnier hjá framkvæmdastjórn ESB,  í Lúxemborg í dag
Adrian Hasler forsætis- og fjármálaráðherra Liechtenstein, Bjarni Benediktsson, Siv Jensen fjármálaráðherra Noregs og Michel Barnier hjá framkvæmdastjórn ESB..

Bjarni Benediktsson, fjármála-og efnahagsráðherra, sótti fund fjármálaráðherra aðildarríkja EFTA og ESB í Lúxemborg í dag. Á fundinum náðist samkomulag milli aðila um meginatriði við innleiðingu þriggja reglugerða um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði. Samkomulagið byggist á tveggja stoða kerfi EES-samningsins. Felur það í sér að allar bindandi ákvarðanir gagnvart EES/EFTA-ríkjunum þremur, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og að hægt verði að bera þær undir EFTA-dómstólinn.  

Í ársbyrjun 2011 tóku til starfa þrjár nýjar eftirlitsstofnanir á evrópskum fjármálamarkaði, sem eru hornsteinn þeirra umbóta sem unnið hefur verið að á umgjörð og regluverki evrópsks fjármálamarkaðar í kjölfar fjármálakreppunnar. Stofnanirnar þrjár eru Bankastofnun Evópu (e. European Banking Authority), Verðbréfamarkaðsstofnun Evrópu (e. European Securities and Markets Authority (ESMA) og Vátryggingastofnun Evrópu (e. European Insurance and Occupational Pensions Authority). Til viðbótar starfar kerfisáhætturáð, European Systemic Risk Board (ESRB). Innleiðing reglugerða um stofnanirnar er forsenda áframhaldandni virkrar þátttöku EFTA/EES-ríkjanna á innri markaðnum með fjármálaþjónustu.

Tilgangur stofnananna er að tryggja nánara samstarf fjármálaeftirlita aðildarríkjanna, auðvelda beitingu evrópskra lausna vegna fjölþjóðlegra vandamála og styðja við einsleita beitingu og túlkun reglna. Daglegt eftirlit með fjármálafyrirtækjum og mörkuðum er eftir sem áður í höndum einstakra ríkja, að undanskildu eftirliti með lánshæfismatsfyrirtækjum og miðlægum mótaðilum.

Stefnt er að því að reglugerðirnar verði teknar inn í EES-samninginn á þessum grundvelli á næstunni. Í framhaldi verður hægt að lögfesta á Íslandi Evrópulöggjöf sem byggir á viðbrögðum við alþjóðlegu fjármálakreppunni en ekki hefur verið hægt að taka upp á Íslandi vegna ákvæða í henni um valdframsal til stofnana ESB. Samkomulagið í dag byggist á á grunngildum EES-samningsins og felur í sér  stofnanir sem Ísland á aðild að taki slíkar ákvarðanir. Með því er tryggt að umgjörð um fjármálaþjónustu verður sambærileg á öllum innri markaði Evrópu.

Sameiginleg yfirlýsing fjármálaráðherra ESB, EES og EFTA ríkja vegna innleiðingar reglugerðanna (á ensku) (PDF, 16,26 KB).

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira