Hoppa yfir valmynd
24. október 2014 Forsætisráðuneytið

Reglugerð um jafnlaunavottun undirrituð á baráttudegi kvenna, 24. október

Launajafnrétti
Launajafnrétti

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur staðfest reglugerð um vottun jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012. Fyrirtæki og stofnanir sem uppfylla kröfur staðalsins geta þar með fengið vottað að málsmeðferð og ákvarðanataka þeirra í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun. „Vonandi reynist jafnlaunastaðallinn árangursríkur í baráttunni fyrir launajafnrétti kynja“ segir ráðherra.

Jafnlaunastaðallinn er sá eini sinnar tegundar í heiminum og er afurð áralangs samstarfs heildarsamtaka launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda. Markmiðið með gerð staðalsins var að finna leið til að eyða kynbundnum launamun þannig að greidd séu sömu laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf, líkt og kveðið er á um í lögum. Staðlaráð Íslands tók þátt í gerð jafnlaunastaðalsins sem er sambærilegur að formi og gerð og alþjóðlegir stjórnunarstaðlar og því vottunarhæfur.

Í reglugerðinni um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana er kveðið á um kröfur til vottunarferlisins og þeirra sem vottunina annast. Markmiðið er að vottunin samræmist alþjóðlegum kröfum um ferli og framkvæmd vottunar.

Til að öðlast heimild til að veita vottun samkvæmt staðilinum þarf faggildingu Einkaleyfastofu. Velferðarráðuneytið skal sjá til þess að reglulega séu haldin námskeið fyrir úttektarmenn í jafnréttis- og vinnumarkaðsmálum sem þýðingu hafa fyrir vottun í samræmi við kröfur jafnlaunastaðalsins. Þar skal meðal annars fjallað um lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, vinnurétt, kjarrasamninga, launagreiningar og flokkun og mat á verðmæti starfa. Námskeiði lýkur með prófi og útgáfu skírteinis.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segist binda miklar vonir við að stofnanir og fyrirtæki sýni því áhuga að uppfylla kröfur jafnlaunastaðalsins og hljóta vottun: „Fyrirtæki og stofnanir sem leggja áherslu á mannauðsmál og vilja vera eftirsóttir vinnustaðir hljóta að sjá sér mikinn hag í því að geta sýnt fram á að þau reki launastefnu sem byggist á markvissum og faglegum aðferðum.“

Reglugerð um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum