Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2014 Forsætisráðuneytið

Kynjahlutfall í nefndum jafnast hjá velferðarráðuneytinu

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Konur voru 51% fulltrúa í nefndum og ráðum á vegum velferðarráðuneytisins árið 2013 og karlar 49%. Kynjahlutfall í nefndum og ráðum ráðuneytanna er hvergi jafnara en í velferðarráðuneytinu og það er eina ráðuneytið þar sem konur eru fleiri en karlar í nefndum og ráðum.

Þetta er fjórða árið í röð sem kynjahlutfall í nefndum og ráðum velferðarráðuneytisins er nánast jafnt.

Samkvæmt 15. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, skal við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga gæta þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og að hlutur hvors kyns sé ekki minni en 40% þegar fulltrúar eru fleiri en þrír. Samkvæmt þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum skulu ráðuneytin birta reglulega upplýsingar um hlut kynja í nefndum og ráðum.

Þegar skoðuð eru hlutföll kynjanna í þeim nefndum og ráðum sem skipað var í hjá velferðarráðuneytinu árið 2013 var hlutfall kvenna 53% á móti 47% karla.

Í skýrslu Jafnréttisstofu um nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna árið 2013 segir að af svörum ráðuneyta undanfarin ár megi lesa að mikil vinna hafi verið lögð í að tryggja jafnt hlutfall kynja í nefndum og ráðum. Flest ráðuneytin hafi skýrt verklag sem geri ráð fyrir að þegar óskað er tilnefninga sé farið fram á tilnefningaraðili tilnefni bæði karl og konu og geri grein fyrir ástæðum þess ef ekki er orðið við þeirri beiðni. Ef hlutlægar og málefnalegar ástæður liggja að baki er heimilt að veita undanþágu, til dæmis ef ástæðan felst í reynslu og sérþekkingu starfsfólks eða verkaskiptingu á vinnustað o.fl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira