Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2014 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Norræna ráðherranefndin vill efla nýsköpun og bæta starfsumhverfi sprotafyrirtækja

Ráðherrafundur um atvinnumál
Ráðherrafundur um atvinnumál

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, stýrði fundi Norrænu ráðherranefndarinnar um atvinnumál í gær. Á fundinum voru ræddar sameiginlegar áherslur Norðurlandanna og má þar nefna frumkvöðlastarf og nýsköpun, einföldun regluverks, ferðaþjónustu og hvernig Norðurlöndin geti aukið útflutning sinn. 

Á fundinum voru ræddar leiðir til að efla nýsköpun og bæta starfsumhverfi norrænna frumkvöðla- og sprotafyrirtækja en atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leiðir metnaðarfullt 3ja ára norrænt verkefni á þessu sviði. Undirliggjandi markmið er að Norðurlöndin skapi framúrskarandi starfsumhverfi fyrir nýsköpunarstarf sem standist samjöfnuð við það sem best gerist. Fyrir liggur að móta sameiginlega stefnu og skilgreina aðgerðir sem Norðurlöndin taki saman höndum við að framkvæma. Stofnaður hefur verið verkefnishópur sem í sitja sex reyndir frumkvöðlar af öllum Norðurlöndunum. Fulltrúar Íslands í verkefnishópnum eru Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri InfoMentor og Jón Tetzchner, fjárfestir og stofnandi Vivaldi. Hópurinn hefur bent á ýmis atriði sem betur mega fara svo sem aðgengi nýsköpunarfyrirtækja að fjármagni,  markaðssókn frumkvöðlafyrirtækja og uppbyggingu mannauðs svo dæmi séu nefnd. 

Ragnheiður Elín og Dagfinn Høybråten framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnarDæmi um samstarfsverkefni sem þegar hefur verið hleypt af stokkunum er norrænt samstarf í Silicon Valley, Nordic Innovation house. Þar geta norræn fyrirtæki nýtt aðstöðu og fengið aðstoð við þróun viðskiptahugmyndar og markaðssókn.

Einnig ræddu ráðherrarnir einföldun regluverks og aukið samstarf á því sviði enda er viðfangsefnið ofarlega á dagskrá ríkisstjórna á Norðurlöndunum. Ráðherrarnir voru sammála um að efla þyrfti samstarf á þessu sviði þar sem löndin hafa hvert um sig reynslu af einföldun regluverks á ólíkum sviðum atvinnulífs.

Á dagskrá fundarins var einnig ferðaþjónusta og samstarf á sviði útflutnings sem ráðherrarnir voru sammála um að efla enda um málaflokka að ræða sem hafa mikla þýðingu í efnahagslífi landanna.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira