Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Norrænu samstarfi um Biophiliu kennsluverkefnið formlega hleypt af stokkunum 

Biophiliu kennsluverkefniðer eitt af formennskuverkefnum Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á yfirstandandi ári undir stjórn mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
Biophilia kennsluverkefnið
Biophilia kennsluverkefnið

Fimmtudaginn 13. nóvember verður Biophilia kennsluverkefninu hleypt af stokkunum. Það er eitt af formennskuverkefnum Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á yfirstandandi ári undir stjórn mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Samstarfsaðilar frá öllum fimm Norðurlöndunum auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands hittast á Íslandi til þess að taka fyrstu skrefin í þessu norræna samstarfsverkefni. Hvert landanna hefur skipað stýrihóp og tilgreint svæði þar sem Biophilia verður kennd á næsta ári. Verkefnið er til þriggja ára; árið 2014 fer í undirbúning, árið 2015 í framkvæmd á Norðurlöndunum og árið 2016 í mat og eftirfylgni.
Svæðin eru eftirfarandi:
Danmörk: Álaborg
Finnland: Grankulla/Kaunainen
Noregur: Strand sveitarfélag
Svíþjóð: Sundsvall
Álandseyjar: Mariehamn
Færeyjar: Þórshöfn
Grænland: Sisimiut

Stýrihóparnir eru þverfaglegir og í þeim eru fulltrúar skólayfirvalda svæðanna, menningarstofnana og háskóla-eða rannsóknarstofnana.

Dagana 13. – 14. nóvember 2014 hittast þessir fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum hér á Íslandi til að ræða um aðferðafræðina, tengja hana við fjölbreyttar kennsluaðferðir og hefja samstarf milli landanna um þróun verkefnisins. Einnig verður verkefnið kynnt almennt fyrir hópunum og unnið markvisst með þeim að undirbúningi framkvæmdarinnar á þeirra svæðum.
Biophilia er viðamikið kennsluverkefni sem byggir á víðtækri þátttöku fræðimanna, vísindamanna, listamanna, kennara og nemenda á öllum skólastigum. Það byggist á því að nota sköpun sem menntunar- og rannsóknaraðferð þar sem náttúruvísindi, tónlist og tækni eru tengd saman á nýstárlegan hátt.

Markmiðið með Biophilia kennsluverkefninu í norræna samstarfinu er að:
·         efla nýsköpun í skólastarfinu með því að þróa kennsluaðferðir sem sameina þekkingu, sköpun og tækni,
·         umbreyta hefðbundnum kennsluháttum með þverfaglegri nálgun, þvert á aldurshópa, kennslugreinar og fagsvið,
·         þróa staðbundin samstarfsnet í þátttökulöndunum, sem tengjast á norrænum samstarfsvettvangi og þar sem unnið verður að því að efla norrænt notagildi,
·         þróa veflægan starfsvettvang fyrir norrænt samstarf , án landamæra og fyrir mismunandi faghópa,sem verður áfram til eftir að verkefninu lýkur.

Verkefnið á uppruna sinn hér á landi þar sem Björk Guðmundsdóttir tónlistarmaður hefur þróað þessa nýstárlegu aðferð í samstarfi við Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg.   Biophilia kennsluverkefnið byggist m.a. á þeirri grunnhugmynd að best sé að börn hefji listiðkun sína með sköpun þar sem tónlist, vísindi og tækni eru samþætt á nýstárlegan hátt. Með Biophiliu aðferðinni er leitast við að brjóta upp hið hefðbundna kennsluform. Kennarar, fræði- og vísindamenn, listamenn, hugvitsmenn og aðrir þátttakendur vinna þverfaglega, á milli skólastiga,  námsgreina, vísinda og lista þar sem sköpun er notuð sem kennsluaðferð og til að örva umhverfisvitund.

Nánari upplýsingar veita Auður Rán Þorgeirsdóttir, sími 615 2628 og Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir, sími 695 5169

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum