Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2014 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Jöfnun á flutningi og dreifingu á raforku til húshitunar

Á fundi ríkisstjórnar í fyrri viku var samþykkt tillaga iðnaðar- og viðskiptaráðherra þess efnis að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að á fjárlögum fyrir árið 2015 verði 91,5 m.kr. bætt við niðurgreiðslur til húshitunar til að bregðast við fyrirhuguðum hækkunum á kostnaði við rafhitun húsnæðis í þéttbýli. Þær hækkanir má rekja annars vegar til fyrirhugaðra breytinga á neðra þrepi virðisaukaskatts og hins vegar upptöku jöfnunargjalds á raforku, frá og með áramótum, en því gjaldi er ætlað að fjármagna fulla jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku í dreifbýli og þéttbýli.

Tæplega 10% landsmanna hafa ekki möguleika á notkun jarðvarma til húshitunar og búa því við niðurgreidda rafhitun og að óbreyttu munu framangreindar breytingar á virðisaukaskatti og upptaka jöfnunargjalds raforku koma óhagstæðast út fyrir þann hlut þessara íbúa sem búa í þéttbýli. Í dreifbýli vega hins vegar auknar niðurgreiðslur í formi jöfnunargjalds mun þyngra en hækkun vegna breytinga á virðisaukaskatti.

Jafnframt var það bundið fastmælum að á vorþingi verði lögð fram tillaga til þingsályktunar til að fá fram afstöðu þingsins til lengri tíma stefnumörkunar um að niðurgreiða að fullu kostnað við flutning og dreifingu á raforku til húshitunar frá og með árinu 2016. Til að ná því markmiði er áætlað að auka þurfi niðurgreiðslur vegna húshitunar um 240 m.kr., til viðbótar við framangreindar 91,5 m.kr. Er þar um framtíðarlausn þessara mála að ræða sem mun fela í sér að bæði verður búið að jafna að fullu dreifikostnað raforku í dreifbýli og þéttbýli, sem og jafna að fullu kostnað við flutning og dreifingu á raforku til húshitunar hjá þeim sem ekki eiga kost á hitun með jarðvarma.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira