Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2014 Utanríkisráðuneytið

Nálægðin við Vestur-Noreg

Gunnar Pálsson.

Íslandsdagar, sem haldnir voru að frumkvæði heimamanna í Björgvin fyrr á þessu ári,  voru kærkomið tækifæri til að rifja upp hin sterku bönd sem tengt hafa Íslendinga og ættingja þeirra á vesturströnd Noregs frá fornu fari. Samskiptin við Vestur-Noreg eiga sér vart hliðstæðu, nema ef vera skyldi við afkomendur íslenskra innflytjenda í Vesturheimi, en þau samskipti eru þó sögulega séð mun nýrri af nálinni.  Stór hluti þjóðarinnar rekur uppruna sinn til Vestur-Noregs, auk þess sem margvísleg og náin samskipti héldust lengi fram eftir öldum.

Ingólfur Arnarson, fyrsti landnámsmaðurinn á Íslandi, er sagður hafa komið úr Hrífudal í Dalsfirði, fyrir norðan Björgvin. Meira en ellefu hundruð árum síðar, lifir minningin um Ingólf í hjörtum núverandi kynslóðar, eins og undirritaður komst að raun um þegar hann hann  tók þátt í hátíðahöldum í Hrífudal 2011 á fimmtíu ára afmæli styttunnar sem Íslendingar færðu Dalsfirðingum að gjöf.  Í Hrífudal undir Vindheimahóli, þar sem sagt er að Ingólfur hafi fylgst með skipaumferð, blakti íslenski fáninn við hún og gestum var sýnd víkin, þar sem sagt er að Ingólfur og bróðir hans, Hjörleifur, hafi drepið syni Atla jarls áður en þeir urðu landflótta.  Gamall maður bauð gestkomandi Íslendingi að skrifa nafn sitt í litla kompu sem hann dró upp úr vasa sínum, en í ljós kom að í hana hafði hann safnað eiginhandaráritunum Íslendinga sem komið höfðu í byggðarlagið á löngu árabili.  Hér var Íslendingnum fagnað eins og endurheimtum syni og kallaði það fram í hugann eftirfarandi brot úr Hávamálum:

Ungur var ek forðum

fór ek einn saman

þá varð ek villr vega.

En fleira en Ingólfur tengir Ísland menningarlega við Vestur-Noreg. Sunnan Dalsfjarðar liggur Gulen, en samkvæmt Ara fróða sniðu Íslendingar lög sín eftir fyrirmynd frá Gulaþingi.  Íslensk lög mótuðust síðan á sjálfstæðan hátt allt til þess að þau voru skrásett í Grágás á seinni hluta þrettándu aldar, en Grágás, einn mesti  menningardýrgripur þjóðarinnar, varpar ómetanlegu ljósi á baksvið Íslendingasagna.  Norrænir menn tóku auk þess með sér þekkingu á siglingum frá Noregi, en Jón Jóhannesson sagnfræðingur telur engan vafa leika á að siglingar Íslendinga hafi verið mesta afrek norrænna manna á miðöldum, að bókmenntunum frátöldum.

Ísland var kristnað frá Noregi og féll undir erkibiskupsdæmið í Niðarósi frá 1152 fram að siðaskiptum. Á tímabilinu bárust kristnir menningarstraumar til landsins einkum frá Noregi, enda Ísland og Noregur enn sama málsvæðið.   Þegar kom fram á þrettándu öld tengdust norskar bókmenntaiðkanir einkum Björgvin og hirðinni þar. Það var t.a.m. liður í áformum stórkonungsins Hákonar gamla Hákonarssonar (1217 - 1263)  um að gera Noreg að  heimsborgaralegu menningarríki að láta snúa evrópskum samtímabókmenntum, ekki síst af engilnormönnskum toga, á norrænu.  Margar riddarasögur og rómönsur voru þýddar við hirð Hákons í Björgvin og urðu þær fyrirmynd að  sögum sem ritaðar voru á Íslandi.   Einn norsku biskupanna í Skálholti, Jón Halldórsson (1322-1339), svartmunkur frá Björgvin af íslenskum ættum. lærði í París og Bologna og tók saman kver með kristilegum ævintýrum (exempla) sem hann síðan sagði Íslendingum þeim til fræðslu og skemmtunar.

Hakonshallen. Mynd: Ostfold-museerneÞað var á tímum Hákonar gamla að Ísland féll undir norsku krúnuna með Gamla sáttmála (1262 - 64).  Áttu yfirráð konungs að miklu leyti rætur að rekja til innbyrðis ófriðar íslenskra höfðingja á tímabilinu sem kallað hefur verið Sturlungaöld. Einn þeirra höfðingja og hirðmaður konungs, var hinn mikli lærimeistari norrænna bókmennta, Snorri Sturluson, en hann blandast inn í átök Hákonar og vinar síns Skúla jarls, sem hann dvaldi hjá í Björgvin veturinn 1237 - 1238,  með þeim afleiðingum að konungur lýsti hann landráðamann og lét ráða af dögum í Reykholti 1241. Óneitanlega er það því kaldhæðnislegt að það skuli hafa komið í hlut Snorra að reisa Noregskonungum stærri minnisvarða í Heimskringlu en jafnvel Hákonarhöllin í Björgvin, ein frægasta bygging Norðmanna.  

Þegar kom fram á fjórtándu öld, dró úr hinum engilnormönnsku áhrifum,  en að sama skapi jukust tengslin við Hansaborgirnar í norðurhluta Þýskalands. Með tímanum var öllum viðskiptum við Ísland meira eða minna stýrt frá  Björgvin, sem varð eins konar höfuðstaður Íslands á sextándu öld.  Hansakaupmenn fluttu ekki einungis með sér vörur og viðskipti, heldur einnig prentlistina, sannkallaða guðsgjöf til söguþjóðarinnar. Það var  á þýsku öldinni að biskupinn í Skálholti sendi son sinn, Odd Gottskálksson, til að dvelja með ættingjum í Björgvin. Oddur hélt áfram til Þýskalands til náms og  snéri síðar Nýja testamentinu á móðurmálið. Var það fyrsta bókin sem var prentuð á íslensku og hafði hún mótandi áhrif á tunguna.  Á Bryggjunni í Björgvin, í stóðrenni frá Hákonarhöll, er nú kjörræðisskrifstofa Íslands, þar sem gestkomandi getur enn fundið keiminn af reipi, tjöru, harðfisk og gömlum viði.

Það liðu meira en 700 ár frá dauða Snorra þar til Ísland sendi fyrsta sendiherra sinn til Osló árið 1947. Sagan segir að eitt af hans fyrstu verkum hafi verið að bjóða fyrirmennum í borginni til veislu á Grand hotel, en þar hafi hann látið svo um mælt í ræðu að í raun hefði ekkert gerst í samskiptum Íslands og Noregs frá tímum Snorra þar til hann sjálfur var tilnefndur sendiherra.  Þótt lýsingin kunni að einhverju leyti að eiga við um tíðindasnauð samskipti við norska konungsvaldið í samanburði við þrettándu öldina, gefur hún tæplega rétta mynd af af þeim nánu tengslum sem ætíð hafa verið á milli Íslands annars vegar og Björgvinjar og Vestur-Noregs hins vegar.  Á Íslandsdögunum  3. - 6. apríl sl. mátti sjá þess glöggt vitni að vinskapur þjóðanna og samhugur stendur enn djúpum rótum.

Gunnar Pálsson er sendiherra Íslands í Noregi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira