Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2014 Utanríkisráðuneytið

Seinkun á innleiðingu fríverslunarsamnings EFTA við aðildarríki Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa

Þann 1. júlí sl. tók gildi fríverslunarsamningur EFTA við aðildarríki Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa, GCC, sem samanstendur af Sádi-Arabíu, Sameinuðu Arabísku furstadæmunum, Barein, Óman, Katar og Kúveit. Samningurinn kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Að auki gerðu Ísland og aðildarríki GCC með sér tvíhliða samning um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur.

Aðildarríki GCC hafa nýverið upplýst EFTA-ríkin um að dráttur hafi orðið og muni áfram verða á framkvæmd samningsins í aðildarríkjum þess. Þau hafa jafnframt gefið til kynna að svo kunni að fara að samningurinn komi ekki til framkvæmda fyrr en um mitt næsta ár. EFTA-ríkin hafa komið á framfæri þungum áhyggjum sínum af þessari seinkun á framkvæmd samningsins og hafa lagt á það áherslu að GCC tryggi fulla framkvæmd samningsins eins fljótt og verða má í samræmi við þær skuldbindingar sem þau gengust undir þegar fríverslunarsamningurinn var fullgiltur af þeirra hálfu.

Þessi seinkun á framkvæmd samningsins mun óhjákvæmilega hafa í för með sér að ekki verður unnt að tryggja útflytjendum og innflytjendum vöru á milli Íslands og aðildarríkja GCC að þeir geti nýtt sér ákvæði fríverslunarsamnings EFTA og GCC eða tvíhliða landbúnaðarsamnings Íslands og GCC til niðurfellingar tolla. Þannig munu útflytjendur vöru frá ríkjum GCC að óbreyttu ekki geta fengið útgefnar viðeigandi upprunasannanir sem eru forsenda þess að vara njóti tollfríðinda við innflutning hingað til lands. Sömuleiðis munu íslenskir útflytjendur vöru ekki geta reiknað með því að vörur þeirra muni njóta fríðindameðferðar við innflutning til ríkja GCC.

Ísland mun, ásamt hinum EFTA-ríkjunum, halda áfram að beita sér fyrir því að viðunandi lausn fáist í ofangreindu máli.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum