Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2014 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Tillögur um stefnu og verkefni fyrir börn og ungt fólk

Ráðuneytinu hafa verið afhentar tillögur um aðgerðaáætlun í barnamenningarmálum og stefnu í æskulýðsmálum

Ráðuneytið hefur nú til athugunar stefnumótun í æskulýðsmálum og aðgerðaáætlun um barnamenningarmál. Á þessu stigi málsins endurspegla gögnin einungis afstöðu höfunda þeirra en ráðuneytið á eftir að taka afstöðu til gagnanna og birtir þau með þeim fyrirvara.

Starfshópur um menningu barna og ungmenna samdi aðgerðaáætlun um menningu barna og ungmenna 2014-2017 og hún byggir á grundvelli menningarstefnu sem samþykkt var árið 2013.

Aðgerðaáætlunin byggir einkum á þremur grunntillögum:

1.      Menningarpokinn sem á að halda utan um listviðburði sem skólum landsins býðst að kaupa inn á viðráðanlegu verði. Megintilgangur verkefnisins er að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum.

2.      Samráðsvettvangur menningarstofnana um menningu barna og ungmenna sem myndi hittast tvisvar á ári.

3.      Aðrar aðgerðir sem styðja við barnamenningu.

Stefnumótun í æskulýðsmálum er afrakstur af vinnu Æskulýðsráðs sem starfar samkvæmt æskulýðslögum (nr. 70/2007). Hlutverk Æskulýðsráðs er m.a. að gera tillögur um „áherslur og stefnumótun í málaflokknum“ . Markmið með stefnumótuninni er að skilgreina mikilvæg verkefni sem aðilar á vettvangi æskulýðsmála þurfa að vinna að á komandi árum.

Í stefnumótun í æskulýðsmálum er lögð áhersla á atriði sem stuðla að nauðsynlegri þróun og uppbyggingu í æskulýðsmálum á Íslandi. Stefnumótunin á sér langan aðdraganda og hefur orðið til vegna vinnu ráðsins undanfarin fjögur ár. Stefnan er byggð upp með þeim hætti að skilgreind eru sjö meginmarkmið sem stefna ber að í æskulýðsmálum á næstu árum.

Aðgerðaáætlun um menningu barna og ungmenna

Stefnumótun í æskulýðsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum