Hoppa yfir valmynd
2. desember 2014 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræða viðbrögð við breyttum öryggishorfum

Jens Stoltenberg og Gunnar Bragi.
Jens Stoltenberg og Gunnar Bragi.

Í dag funda utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins um eftirfylgni leiðtogafundarins sem haldinn var í Wales í september sl. Ráðherrarnir ræddu viðbrögð við breyttum öryggishorfum í Evrópu vegna aðgerða Rússa gagnvart Úkraínu, vaxandi umsvifa rússneska hersins og uppgangs öfgaafla í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.

Rætt var um stöðu varnarviðbúnaðaráætlunar sem leiðtogar bandalagsríkjanna samþykktu í Wales að móta. Vinnunni miðar vel og hefur hluta af áætluninni verið hrint í framkvæmd í bandalagsríkjum Austur-Evrópu. Markmiðið með áætluninni er að treysta sameiginlegar varnir bandalagsins ekki síst með tilliti til öryggis bandalagsríkja í Austur-Evrópu.

Atlantshafsbandalagið hefur á undanförnum mánuðum sýnt í verki hversu vel það getur aðlagað sig að breyttum aðstæðum og nýjum verkefnum. Samhliða þessu er mikilvægt að efla alþjóðlegt samráð til að mæta nýjum áskorunum og vinna að friðsamlegri lausn deilumála”sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, sem tekur þátt í fundinum.

Á fundi NATO-Úkraínunefndarinnar, sem utanríkisráðherra Úkraínu, Pavlo Klimkin ávarpaði frá Kænugarði, lýstu ráðherrarnir yfir ánægju með framkvæmd þingkosninganna í Úkraínu, hvöttu stjórnvöld til áframhaldandi lýðræðisumbóta og að áfram verði leitað friðsamlegrar lausnar á átökunum í landinu.

Utanríkisráðherrafundurinn markaði einnig tímamót í samstarfi bandalagsins við Afganistan. Aðgerðum ISAF-alþjóðaliðsins sem staðið hafa í 13 ár lýkur í lok árs og ný stuðningsaðgerð hefst með formlegum hætti. Af því tilefni sótti Ashraf Ghani, forseti Afganistan, fundinn og þakkaði hann bandalaginu og samstarfsríkjum fyrir stuðning við umbætur í landinu.

Utanríkisráðherra fundaði einnig með utanríkisráðherra Georgíu, Tamöru Beruchashvili, um samskipti ríkjanna og þróun mála í Georgíu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira