Hoppa yfir valmynd
4. desember 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mikilvæg skref í afnámi fjármagnshafta

Íslensk stjórnvöld munu ekki  samþykkja beiðnir slitastjórnar Landsbankans (LBI hf.) um undanþágur frá fjármagnshöftum sem hún óskaði eftir í bréfi hinn 12. júní sl. Ekki er fallist á að skuldabréf útgefið af Landsbankanum verði undanþegið fjármagnshöftum.

Samþykktar verða undanþágubeiðnir er lúta að forgangskröfum í bú LBI hf. og miðast þær við laust fé í erlendum gjaldeyri. Undanþágufjárhæðin nemur tæpum 400 milljörðum króna, eða tæplega 5% af upphaflegum  kröfum í bú hinna föllnu banka. Fjárhæðin hefur verið innheimt og er til reiðu á bankareikningum LBI hf.

LBI hf.  og Landsbankinn hf. hafa kynnt stjórnvöldum nýtt samkomulag sem felur í sér breytingar á skilmálum skuldabréfs útgefnu af Landsbankanum. Áður höfðu sömu aðilar náð samkomulagi um skilmálabreytingar á bréfinu í maí sl. sem þeir höfðu kynnt stjórnvöldum ásamt beiðnum um að veittar yrðu víðtækar undanþágur frá fjármagnshöftum á greiðslum til kröfuhafa í bú Landsbankans. Þær breytingar sem nú hefur náðst samkomulag um fela m.a. í sér að verulega er dregið úr endurfjármögnunaráhættu Landsbankans.

Ofangreind ákvörðun um veitingu undanþágu einskorðast við greiðslur til forgangskröfuhafa. Með þeim greiðslum sem nú verða heimilaðar hafa forgangskröfuhafar í bú Landsbankans fengið um 85% af höfuðstóli krafna sinna greiddan. Forgangskröfur í bú Glitnis og Kaupþings eru að fullu greiddar nú þegar. Forsenda þess að ofangreindar greiðslur eru heimilaðar er að tillögur um heildstæða stefnu stjórnvalda um afnám fjármagnshafta liggja nú fyrir.

Íslensk stjórnvöld munu ekki veita undanþágur til almennra kröfuhafa nema í samhengi við framkvæmd þeirrar stefnu.

Breytingar á skilmálum skuldabréfsins milli LBI hf. og Landsbankans eru forsenda þess að undanþágur til forgangskröfuhafa eru heimilaðar nú. Búið er að lengja afborgunarferil skuldabréfsins og minnka endurfjármögnunaráhættu eftir árið 2018.  Rétt er að taka fram að skuldabréfið er uppgreiðanlegt og því er mögulegt fyrir Landsbankann að endurfjármagna bréfið um leið og betri kjör eru í boði á fjármagnsmörkuðum.  

Með uppgjöri forgangskrafna er náð mikilvægum áfanga í slitameðferð hinna föllnu banka sem mun einfalda stjórnvöldum að ráðast í framkvæmd heildstæðrar stefnu um afnám fjármagnshafta.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira