Hoppa yfir valmynd
4. desember 2014 Dómsmálaráðuneytið, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Nýr innanríkisráðherra tekur við embætti

Nýr innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, tók við ráðherraembætti á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fráfarandi innanríkisráðherra, óskaði eftir lausn frá embætti 21. nóvember síðastliðinn og tilkynnti formaður Sjálfstæðisflokksins um nýjan ráðherra á fundi þingflokksins í morgun.

Ólöf Nordal tók í dag við embætti innanríkisráðherra af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.
Ólöf Nordal tók í dag við embætti innanríkisráðherra af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.

Ólöf Nordal kom í ráðuneytið í framhaldi af ríkisráðsfundinum eftir viðkomu hjá fráfarandi dómsmálaráðherra. Í innanríkisráðuneytinu tók hún við lyklavöldum hjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og átti síðan fund með starfsfólkinu.

Ólöf Nordal sat ríkisráðsfund á Bessastöðum í dag.Ólöf Nordal er fædd í Reykjavík 3. desember 1966. Foreldrar hennar eru Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, og Dóra Guðjónsdóttir Nordal, píanóleikari og húsmóðir. Maður hennar er Tómas Már Sigurðsson forstjóri og eiga þau fjögur börn. Ólöf lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1986, lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1994 og MBA-prófi frá HR 2002.

Ólöf var deildarstjóri í samgönguráðuneyti 1996-1999 og lögfræðingur hjá Verðbréfaþingi Íslands 1999-2001. Hún var stundakennari í lögfræði við Viðskiptaháskólann á Bifröst 1999-2002, deildarstjóri viðskiptalögfræðideildar Viðskiptaháskólans á Bifröst 2001-2002, yfirmaður heildsöluviðskipta hjá Landsvirkjun 2002-2004, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá RARIK 2004-2005 er rafmagnssala var tekin inn í sérstakt fyrirtæki, Orkusöluna, og framkvæmdastjóri Orkusölunnar 2005-2006.

Ólöf var kjörin á þing 2007 og var alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi frá 2007 til 2009 og síðan í Reykjavíkurkjördæmi suður árin 2009 til 2013. Hún var formaður Sjálfstæðiskvennafélagsins Auðar á Austurlandi 2006-2009 og varaformaður Sjálfstæðisflokksins 2010-2013. Þá var hún um skeið formaður Spes, hjálparsamtaka vegna byggingar barnaþorpa í Afríku.

Ólöf hefur setið í eftirtöldum nefndum Alþingis: Allsherjarnefnd 2007-2010, samgöngunefnd 2007-2009, umhverfisnefnd 2007-2009, fjárlaganefnd 2009-2010, kjörbréfanefnd 2009-2011, sérnefnd um stjórnarskrármál 2010-2011, utanríkismálanefnd 2010-2011, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd 2011-2013.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira