Hoppa yfir valmynd
12. desember 2014 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ný reglugerð um merkingar matvæla tryggir öflugri neytendavernd

Reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda var undirrituð í dag. Með henni er ætlunin að tryggja öflugri neytendavernd í tengslum við matvælaupplýsingar. Reglugerðin, sem innleiðir reglugerð Evrópusambandsins nr. 1169/2011, gerir kröfu um skýrari, ítarlegri og nákvæmari upplýsingar um innihald matvæla.  

Í reglugerðinni er fjallað um almennar meginreglur, kröfur og skyldur er varða matvælaupplýsingar, einkum merkingar matvæla. Meðal breytinga sem gerðar eru á núgildandi reglum má nefna að kröfur eru gerðar um betri læsileika á umbúðum, skýrari reglur um upplýsingagjöf um ofnæmisvalda í matvælum, kröfur um tilteknar næringarupplýsingar á forpökkuðum matvælum og kröfur um upprunamerkingar á kjöti.

Reglugerðin gildir um stjórnendur matvælafyrirtækja á öllum stigum matvælaferlisins þegar starfsemi þeirra varðar miðlun matvælaupplýsinga til neytenda. Hún gildir um öll matvæli sem ætluð eru lokaneytendum, þ.m.t. matvæli sem stóreldhús afgreiða og matvæli sem ætluð eru fyrir stóreldhús.

Reglugerðin mun taka gildi við birtingu í Stjórnartíðindum. Matvæli sem sett eru á markað eða merkt fyrir 13. maí 2015 og eru merkt í samræmi við núgildandi reglugerðir og uppfylla ekki kröfur nýju reglugerðarinnar, má setja á markað á meðan birgðir endast. 

Reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira