Hoppa yfir valmynd
16. desember 2014 Forsætisráðuneytið

Ávarp forsætisráðherra á málþingi um lýðheilsumál

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, flutti ávarp á málþing um lýðheilsumál í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag. Þar benti hann á að góð heilsa er eitt af því mikilvægasta í lífi hvers manns - og þekking á heilsu og því hvernig hægt er að bæta heilsu hefur fleygt fram. „Stjórnvöldum ber að mínu mati að skapa aðstæður til að auðvelda fólki að efla heilsu sína. Þess vegna var skipuð sérstök ráðherranefnd um lýðheilsu í mars síðastliðnum,“ sagði forsætisráðherra í ávarpi sínu.

Forsætisráðherra áréttaði að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar komi fram að lýðheilsa og forvarnastarf sé meðal forgangsverkefna. Þar kemur einnig fram að ríkisstjórnin hefur mikinn vilja til að auka almenn lífsgæði landsmanna með því að efla starf á sviði forvarna og lýðheilsu og draga þannig úr beinum og óbeinum kostnaði fyrir samfélagið allt til framtíðar.

Tveir erlendir gestafyrirlesarar fluttu erindi á málþinginu, þau Timo Ståhl, sviðsstjóri Lýðheilsustofnunar Finnlands, og Tone Poulsen Torgersen, sérfræðingur hjá Heilbrigðismálastofnun Noregs (Helsedirektoratet). Þriðja erindið á málþinginu flutti Dóra Guðrún Guðmundsóttir, sviðsstjóri hjá embætti landlæknis. Að erindum loknum voru pallborðsumræður.

Málþingið var haldið í framhaldi af sérfræðingafundi um þetta málefni sem embætti landlæknis gekkst fyrir í samstarfi við velferðarráðuneytið í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum