Hoppa yfir valmynd
18. desember 2014 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Ráðherrar innsigla víðtækt samstarf gegn ofbeldi

Efnt verður til víðtæks samráðs á landsvísu milli félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds til að efla aðgerðir gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.
Illugi Gunnarsson, Ólöf Nordal og Eygló Harðardóttir undirrita samstarfssamning gegn ofbeldi
Illugi Gunnarsson, Ólöf Nordal og Eygló Harðardóttir undirrita samstarfssamning gegn ofbeldi

Þrjú ráðuneyti munu leiða samráðið eins og fram kemur í samstarfsyfirlýsingu sem ráðherrar þessara ráðuneyta undirrituðu í dag.

Við erum „einhuga um að vinna saman gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess, auka fræðslu og forvarnarstarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála“ segir í upphafi samstarfsyfirlýsingarinnar sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Ólöf Nordal innanríkisráðherra og Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, undirrituðu í húsakynnum innanríkisráðuneytisins.

Í yfirlýsingu ráðherranna er tilgreint að samstarfið muni beinast að aðgerðum til að sporna við ofbeldi gegn börnum, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi og ofbeldi gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Þá segir einnig að til ofbeldis sem yfirlýsingin tekur til teljist einnig hatursfull orðræða sem hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógnandi í garð einstaklinga eða hópa.

Samhliða áherslu á stóraukið samráð verður unnið að því að bæta verklag þar sem þess gerist þörf, auka forvarnir og fræðslu, annars vegar gagnvart almenningi og börnum og hins vegar gagnvart þeim sem í störfum sínum geta á einhvern hátt komið að málum sem tengjast ofbeldi, hvort sem er innan menntakerfisins, velferðarkerfisins eða réttarvörslukerfisins. Rík áhersla er lögð á stuðning við þolendur ofbeldis og vernd þeirra en jafnframt er í yfirlýsingunni getið um nauðsyn þess að aðstoða gerendur ofbeldis við að horfast í augu við vanda sinn og takast á við hann svo draga megi úr ofbeldi í samfélaginu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira