Hoppa yfir valmynd
19. desember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Tekjuviðmið vegna frekari uppbótar á lífeyri hækkar um 12,5%

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í morgun tillögu Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um að hækka tekjuviðmið vegna frekari uppbótar á lífeyri um 12,5% frá 1. janúar næstkomandi. Viðmiðið fer úr 200.000 kr. á mánuði í 225.070 kr. og verður þar með jafn hátt framfærsluviðmiði þeirra sem búa einir.

Uppbótin sem um ræðir á sér stoð í lögum um félagslega aðstoð þar sem kveðið er á um að greiða megi lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur á annan hátt og sýnt þykir að hann þurfi aðstoð til að framfleyta sér. Dæmi um útgjöld sem uppbótin tekur til eru sjúkra- og lyfjakostnaður, húsaleigukostnaður sem fellur utan húsaleigubóta og fleira sem skilgreint er í reglugerð nr. 1052/2009. Þar er einnig skýrt hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að eiga rétt á uppbót á lífeyri.

Í fjárlögum næsta árs er lögð til 72 milljóna króna aukning til að hækkunar á frekari uppbót á lífeyri almannatrygginga. Með 12,5% hækkun á tekjuviðmiðinu mun fyrirsjáanlega fjölga töluvert í hópi þeirra sem geta átt rétt á frekari uppbót. Ekki er unnt að áætla hve fjölgunin verður mikil og því er miðað við að þessi hækkun á tekjuviðmiðinu verði endurskoðuð að þremur mánuðum liðnum þar sem skoðað verður mögulegt svigrúm til frekari hækkunar.

Ráðherra hefur undirritað reglugerð um hækkunina og verður hún birt á vef Stjórnartíðinda fyrir áramót.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira